Svo sem engin flugeldasýning

Bjarni Mark Antonsson Duffield Valsari.
Bjarni Mark Antonsson Duffield Valsari. Ljósmynd/Valur

„Mér fannst þetta bara flott og traust hjá okkur, ég held að það sé ekki hægt að segja neitt annað, engin flugeldasýning og stundum þarf bara það sem þarf að gera,“  sagði Bjarni Mark Duffield, sem átti góðan leik fyrir Val í 4:0 sigri á Fylki er liðin mættust að Hlíðarenda í dag þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta.

„Við vorum svolítið lengi í gang því við vorum að þreifa fyrir okkur, sjá hvernig Fylkir væri að spila, sjá hvar þeir eru að pressa okkur og hvar að gefa okkur svæði en svo fannst mér við spila faglega.“

Valsmenn er eftir sem áður með í baráttunni um efsta sætið í deildinni, fóru upp fyrir Breiðablik sem gerði jafntefli fyrir vestan og vantar 5 stig í Víkinga. „Okkur skiptir svo sem engu máli hvað Breiðablik eða hin liðin eru að gera, bara gamla klisjan um að vinna bara okkar leiki og það er nóg eftir af mótinu.  Við höfum verið svakalega óheppnir með meiðsli uppá síðkastið, margir að fara í leiki tæpir og ég gat varla labbað gær en spilaði níutíu mínútur í dag.   Við þurfum að fá sem flesta til baka og þá held ég að liðið fara að virka eins og vel smurð vél,“ sagði Bjarni Mark.  

Náðum ekki sama flugi

Ásgeir Eyþórsson varnarmaður Fylkis hafði í nógu að snúast.  „Mér leið vel í fyrri hálfleik, sem mér fannst við spila vel þegar Valur fékk einhver hálf-færi því við vorum þéttir í vörninni og fengum fína möguleika, sem við hefðum getað nýtt betur, sagði Ásgeir eftir leikinn í dag. 

„Ég veit ekki hvernig var í síðari hálfleik, mér fannst við ekki ná sama flugi, voru opnari og þegar annað markið hjá Val datt botninn aðeins úr þessu hjá okkur. Ég veit að það leiðinlegasta sem maður gerir er að tapa leikjum en menn hafa fulla trú á þessu og það er hægt að snúa þessu við.  Við verðum bara að spila betur til að fá betri úrslit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert