Ég má bara taka langskot

Blikinn Heiða Ragney með boltann en varnarmaður FH sækir að …
Blikinn Heiða Ragney með boltann en varnarmaður FH sækir að henni. mbl.is/Óttar

„Ég má ekki skjóta nema það séu langskot,“ sagði  Heiða Ragney Viðarsdóttir létt í bragði en hún átti nokkur bylmingsskot af löngu færi þegar Breiðablik vann FH 4:0 á Kaplakrika er 12. umferð efstu deildar kvenna lauk í kvöld. 

Sum skotin af miðjum vallarhelmingi mótherja varði markmaður FH en eitt fór í þverslána.

„Við höfum reyndar ekkert verið að ræða þetta, maður finnur bara augnablikið  í hvert skipti.  Ég tók eitt svona skot fyrr í sumar og var ekkert að gera meira í því en þegar þetta lá vel við ákvað ég að negla á markið.  Það hefði verið frábært ef boltinn hefði farið í bakið á markmanni FH og í markið, það hefði verið alveg frábært.“

Heiða Ragney var sátt við sitt lið. „Mér fannst þetta frábær leikur, með þeim betri sem við höfum spilað í langan tíma.  FH-ingar áttu færi í byrjun leiks en Telma markmaður okkar bjargaði okkur frábærlega.  Mér fannst ógeðslega gott að fá eitt mark í fyrri hálfleik því mér fannst við valta yfir þær í þeim seinni.“

Blikar voru í efsta sæti deildarinnar en misstu það tímabundið þegar Valur vann Víking í dag en voru ákveðnir í að ná því aftur enda mikilvægt fyrir liðið. „Okkur fannst fínt að hafa þá gulrót að ná aftur efsta sætinu í deildinni, sérstaklega þar sem við erum að fara í pásu og við hugsuðum um það fyrir leik, vildum fá þessi stig að komast aftur á toppinn.   

Það er gott að vera þar en líka vinna síðasta leik áður en hléið tekur við, þá getur maður hvílt sig og safnað kröftum fyrir næstu leiki,“ bætti Heiða Ragney við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert