KA sótti stig í Kaplakrika

Sigurður Bjartur Hallsson með boltann í kvöld.
Sigurður Bjartur Hallsson með boltann í kvöld. mbl.is/Arnþór

FH og KA skildu jöfn í Bestu deild karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld, 1:1. Fyrri hálfleikurinn var ekki sá fjörugasti í sumar en líf færðist í leikinn í þeim síðari sem reyndist fínasta skemmtun.

Leikurinn var í nokkru jafnvægi til að byrja með en heimamenn voru þó meira með boltann. KA-menn voru aftarlega en komu sér oft á tíðum í fínar stöður eftir skyndisóknir þar sem Sveinn Margeir Hauksson var manna líflegastur.

Heimamenn náðu forystunni á 27. mínútu. Eftir atgang í teig KA fór boltinn upp í loft þar sem Úlfur Ágúst Björnsson var fyrstur að átta sig og stangaði boltann í netið af stuttu færi. Markið var líklega ólöglegt en Sigurður Bjartur Hallsson var rangstæður en hann stóð beint fyrir framan Steinþór Má Auðunsson, markmann KA. Ekkert var hins vegar dæmt en KA-menn mótmæltu kröftuglega.

Viðar Örn Kjartansson fékk algjört dauðafæri til að jafna metin á 42. mínútu. Eftir misskilning í vörn FH slapp Viðar einn gegn Sindra Kristni Ólafssyni, markverði FH, en setti boltann laflaust beint í fangið á honum. Alls ekki nægilega vel gert hjá þessum mikla markaskorara en hann átti svo sannarlega að skora úr þessu færi.

FH fékk fyrsta alvöru færi seinni hálfleiks á 57. mínútu þegar Ísak Óli Ólafsson átti skalla í þverslánna eftir hornspyrnu Kjartans Kára Halldórssonar. Ísak reis hæst á nærsvæðinu og náði mjög góðum skalla en sem betur fer fyrir KA small boltinn í þverslánni.

KA fékk kjörið tækifæri til að jafna metin á 68. mínútu. Sveinn Margeir átti þá fyrirgjöf frá hægri með grasinu á varamanninn Ásgeir Sigurgeirsson, sem gerði mjög vel og lagði hann í fyrsta út á Hallgrím Mar Steingrímsson. Hallgímur hafði mikið pláss við vítateigslínuna en skot hans með vinstri fæti var alls ekki nægilega gott og fór framhjá markinu.

Gestunum tókst hins vegar að jafna metin á 80. mínútu. Hallgrímur Mar fékk boltann vinstra megin í teignum, einn gegn Sindra Kristni, eftir mjög góða sókn. Hallgrímur lyfti boltanum yfir Sindra sem kom að fullum krafti í úthlaupið og straujaði Hallgrím. Vítaspyrna réttilega dæmd sem Hallgrímur skoraði sjálfur úr, af miklu öryggi.

Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma fékk Úlfur Ágúst svo frábært færi til að skora sigurmarkið. Björn Daníel Sverrisson og Arnór Borg Guðjohnsen gerðu þá virkilega vel en Arnór fann að lokum Úlf inni á markteignum en hann skóflaði boltanum yfir markið.

Þetta reyndist vera síðasta færi leiksins og deildu liðin því stigunum í kvöld. FH er áfram í 5. sæti deildarinnar með 21 stig og KA áfram í því 10. með 12, stigi á undan Vestra sem er í fallsæti.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 1:1 KA opna loka
90. mín. Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA) á skot framhjá +4 - Fær boltann vinstra megin í teignum en dregur hann framhjá fjærstönginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert