Gott stig á erfiðum útivelli

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var nokkuð sáttur eftir jafntefli við FH, 1:1, á útivelli í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Já, ég er sáttur með stigið. Mér fannst við mæta gríðarlega flottu FH-liði sem er búið að standa sig rosalega vel. Við lendum undir og komum til baka svo ég er bara mjög ánægður með stigið. Bæði lið sköpuðu tvö eða þrjú góð færi fyrir utan mörkin svo ég hugsa að jafntefli sé bara sanngjörn niðurstaða.“

KA-liðið hefur sýnt framfarir undanfarnar vikur en liðið byrjaði tímabilið illa. Hallgrímur segist ánægður með svarið sem sínir menn hafa sýnt.

„Það er bara þannig. Það eru allir að berjast fyrir hvor annan og að gera sitt. Við vitum að ef það er til staðar erum við virkilega gott lið sem getur unnið hvaða leik sem er. FH-ingar eru gríðarlega góðir í því sem þeir gera, við lendum undir á móti þeim hérna. Leikurinn þróast þannig að þeir geta verið þéttir, barist, skallað og unnið návígi sem þeir gera bara virkilega vel. Það var mjög erfitt að koma til baka og ég er mjög ánægður með að hafa gert það.

Svo eftir að við jöfnuðum þurfa þeir aðeins að opna sig og þá fáum við tvær mjög góðar stöður og hefðum getað klárað leikinn. Við erum bara að spila vel og fengum gott stig hérna á erfiðum útivelli. Völlurinn var virkilega góður en þetta er samt sem áður grasvöllur og við höfum ekki spilað á grasvelli síðan í bikarúrslitunum í fyrra, þannig við erum aðeins óvanari en FH-ingarnir og þurftum að spila aðeins beinskeyttari fótbolta. Aðstæður voru frábærar en þeir voru vanari grasinu og þeir gera bara mjög vel. Ég er mjög ánægður með þetta bara.“

FH komst yfir í leiknum en KA jafnaði metin á 80. mínútu. Eftir það fengu bæði lið hörku færi til að skora sigurmarkið.

„Ef ég hefði getað valið hvernig síðustu 20 mínúturnar yrðu, þá vildi ég opinn leik. Eina leiðin fyrir okkur til að koma til baka var að skora. Ef þeir hefðu skorað annað mark leiksins hefði þetta vissulega orðið erfiðara en við skoruðum það og þá opnuðu þeir sig aðeins. Þá fengum við aðeins fleiri færi og þeir sem komu inn á af bekknum hjá okkur höfðu góð áhrif á leikinn. Hópurinn er sterkur og er að verða enn sterkari, trúin er að styrkjast og það er það sem við höfum gert rosalega vel síðustu mánuði.“

Mark FH í leiknum var ólöglegt og hefði aldrei átt að standa. Sigurður Bjartur Hallsson var rangstæður og stóð í sjónlínu Steinþórs Más Auðunssonar, markmanns KA, þegar Úlfur Ágúst Björnsson skallaði boltann í netið.

„Ég get eiginlega ekki tjáð mig um þetta en ég hef heyrt það frá þeim sem hafa séð þetta aftur að þetta hafi verið ólöglegt. Mínir leikmenn segja líka að þetta hafi verið ólöglegt, að hann hafi verið rangstæður og staðið fyrir Stubb. Það er svekkjandi en ég ætla að einbeita mér meira að því að hafa komið til baka eftir að hafa lent undir.“

Sveinn Margeir Hauksson og Birgir Baldvinsson, leikmenn KA, halda til Bandaríkjanna í nám í kringum næstu mánaðamót og klára því ekki tímabilið með liðinu.

„Við erum að vinna í því, við erum búnir að fá inn tvo leikmenn sem hafa lítið verið með í sumar. Jakob [Snær Árnason] er orðinn klár og Harley [Willard] er alltaf að komast í betra og betra stand. Hópurinn er því að styrkjast en við munum klárlega kíkja í kringum okkur þegar þeir fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert