Jason á leið frá Blikum til Englands

Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks.
Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks. mbl.is/Óttar Geirsson

Jason Daði Svanþórsson, sóknarmaður úr Breiðabliki, er á leið til enska knattspyrnufélagsins Grimsby Town.

Þetta staðfestir Bjarki Már Ólafsson, umboðsmaður Jasonar, við fótbolti.net í dag og segir að Jason sé staddur á Englandi að ganga frá sínum málum. Félögin séu langt komin í sínum viðræðum.

Grimsby leikur í ensku D-deildinni og endaði þar í 21. sæti af 24 liðum á síðasta tímabili. Tvö neðstu liðin falla og liðið var því aðeins sjö stigum frá því að falla út úr ensku deildakeppni og niður í úrvalsdeild utandeildanna.

Jason er 24 ára gamall kantmaður og hefur verið í stóru hlutverki hjá Breiðabliki síðan hann kom til félagsins frá Aftureldingu fyrir rúmlega þremur árum. Hann hefur leikið 82 leiki fyrir félagið í efstu deild og skorað í þeim 26 mörk. Jason hefur skorað fimm mörk í 13 leikjum í deildinni í ár og er markahæsti leikmaður liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert