Úr Bestu í 2. deild

Nacho Gil.
Nacho Gil. Ljósmynd/Selfoss

Selfoss, í 2. deild karla í fótbolta, tilkynnti í gær að miðjumaðurinn Nacho Gil væri genginn til liðs við félagið.

Nacho er 31 árs gamall Spánverji en kom til Íslands árið 2018 og spilaði tvö tímabil með Þór á Akureyri áður en hann skipti yfir í Vestra.

Hann getur bæði spilað á miðri miðjunni og sem varnatengiliður. Hann spilaði stórt hlutverk á síðasta tímabili þegar Vestri komst upp í Bestu deild en hefur aðeins spilað í fimm leikjum á þessu tímabili.

,,Ég þekki Bjarna Jóhannsson þjálfara liðsins en við unnum saman hjá Vestra fyrir fjórum árum. Bjarni fær það besta út úr þeim leikmönnum sem hann er að vinna með að hverju sinni og það er það sem ég þarf á þessum tímapunkti á mínum ferli.

Ég vonast til þess að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum á tímabilinu. Liðið hefur verið að gera góða hluti í deildinni, með mjög ungt lið og svo eru aðstæðurnar hérna á Selfossi auðvitað frábærar,” sagði Nacho á samfélagsmiðlum Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert