Lið spila svona á móti Manchester City

Danijel Dejan Djuric reynir að komast framhjá írskum varnarmanni á …
Danijel Dejan Djuric reynir að komast framhjá írskum varnarmanni á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Að fara með 0:0 úr þessum leik er gott fyrir þá en ekki eins gott fyrir okkur,“ sagði Danijel Dejan Djuric leikmaður Víkings úr Reykjavík í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli liðsins við Shamrock Rovers í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Víkingsvelli í kvöld.

„Mér leið eins og við vorum liggjandi á þeim en það vantaði aðeins upp á að skora. Við vorum miklu meira með boltann og þeir voru að elta og loka markinu. Það er erfitt. Þeir voru að tefja mikið og þá datt maður úr taktinum.

Það er skemmtilegra þegar það er meira flæði í leiknum. Maður verður að læra að spila á móti liði sem er að tefja svona mikið. Þeir voru með fimm manna vörn og múruðu fyrir markið. Lið spila svona á móti Manchester City og þetta er erfitt,“ sagði hann.

Liðin mætast aftur í Dublin eftir viku og verða Víkingar að skora á útivelli til að fara áfram.

„Ég met möguleikana okkar vel. Þeir þurfa að sækja í seinni leiknum og þá opnast glufur sem við getum nýtt okkur. Við erum betri í fótbolta en þeir tóku þetta á hörkunni,“ sagði Danijel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert