Víkingar verða að skora í Dublin

Danijel Dejan Djuric í baráttu við Joshua Honohan á Víkingsvellinum …
Danijel Dejan Djuric í baráttu við Joshua Honohan á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Íslandsmeistarar Víkings og Írlandsmeistarar Shamrock Rovers gerðu jafntefli, 0:0, í fyrri leik liðanna í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Víkingsvelli í kvöld. Seinni leikurinn fer fram á Írlandi eftir viku.

Sigurvegari viðureignarinnar mætir Sparta Prag í annarri umferð undankeppni Meistaradeildarinnar en tapliðið mætir Borac Banja Luka frá Bosníu eða Egnatia frá Albaníu á annarri umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar.

Lítið var um færi í fyrri hálfleik en Víkingar voru sterkari og nær því að skora. Á tíundu mínútu fengu heimamenn tvö góð færi. Fyrst átti Jón Guðni Fjóluson skalla að marki sem Leon Pöhls varð í stöngina og Erlingur Agnarsson setti boltann einnig í stöngina í kjölfarið.

Danijel Dejan Djuric átti svo skot utan teigs sem fór rétt framhjá markinu skömmu síðar. Eftir það tókst gestunum að róa leikinn með því að tefja vel og urðu færin ekki mikið fleiri. Var staðan í leikhléi því markalaus.

Svipað mynstur var á leiknum í seinni hálfleik. Víkingar voru mun meira með boltann og sóttu mun meira en illa gekk að reyna á markvörð gestanna. Var staðan því enn markalaus þegar 80 mínútur voru komnar á klukkuna.

Þá dró til tíðinda því Darragh Nugent fékk sitt annað gula spjald, fyrir leikaraskap, og þar með rautt og voru Víkingar manni fleiri á lokakaflanum.

Þrátt fyrir það fengu Shamrock-menn dauðafæri á 87. mínútu er varamaðurinn Johnny Kenny slapp einn í gegn en lagði boltann yfir mark Víkinga.

Mínútu síðar átti Danijel Djuric skot rétt framhjá úr aukaspyrnu af um 20 metra færi. Í kjölfarið skallaði Jón Guðni rétt framhjá úr horni og varamaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson gerði slíkt hið sama eftir fyrirgjöf.

Þrátt fyrir mikla pressu Víkinga í lokin tókst þeim ekki að skora og liðin eru hnífjöfn fyrir seinni leikinn í Dublin.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 0:0 Shamrock opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert