Brynjar Björn í Árbæinn

Brynjar Björn Gunnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Björn Gunnarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Fylkis í knattspyrnu og tekur hann við starfinu af Olgeiri Sigurgeirssyni sem lét af störfum á dögunum.

Brynjar Björn, sem er 48 ára gamall, á að baki farsælan feril sem bæði leikmaður og þjálfari og skrifaði hann undir samning sem gildir út tímabilið í Árbænum.

Hann stýrði síðast liði Grindavíkur í 1. deildinni en hann hefur einnig stýrt HK og Ögryte á þjálfaraferlinum. Þá var hann aðstoðarþjálfari Rúnars Páls Sigmundssonar, þjálfara Fylkis, hjá Stjörnunni frá 2014 til 2017.

Hann á að baki 74 A-landsleiki fyrir Ísland en ásamt því að leika með uppeldisfélagi sínu KR á leikmannaferlinum lék hann einnig með Stoke, Nottingham Forest, Watford og Reading á Englandi, Vålerenga í Noregi og Örgryte í Svíþjóð.

Fylkir situr í tólfta og neðsta sæti Bestu deildarinnar með 8 stig eftir fyrstu þrettán umferðirnar, fjórum stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert