Emil með tvö mörk úr aukaspyrnum

Örvar Eggertsson í kapphlaupi við Ryan Mckay á Stjörnuvellinum í …
Örvar Eggertsson í kapphlaupi við Ryan Mckay á Stjörnuvellinum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Stjarnan vann frækinn heimasigur á Linfield frá Norður-Írlandi, 2:0, í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.

Emil Atlason skoraði bæði mörk Stjörnunnar úr aukaspyrnum, það fyrra beint úr aukaspyrnu á 22. mínútu og það seinna eftir að skot hans úr aukaspyrnu fór í varnarvegginn á 60. mínútu.

Leikurinn fór rólega af stað í rigningunni í Garðabænum í kvöld, en heimamenn voru þó öllu ákafari á upphafsmínútum leiksins. Óli Valur Ómarsson, sem átti frábæran leik í kvöld, átti fyrsta almennilega færi leiksins á 8. mínútu, en skot hans fór í varnarmann og aftur fyrir. Gerðu heimamenn harða hríð að marki Linfields næstu mínúturnar, þar sem þeir fengu þrjár hornspyrnur í röð en náðu ekki að nýta sér þær.

Á 20. mínútu dróg til tíðinda, en þá tæklaði Scot Whiteside Örvar Eggertsson skammt utan vítateigs að breskum sið, og uppskar hann gult spjald fyrir. Tafðist leikurinn ögn meðan hlúð var að Örvari, en Emil Atlason gerði sér svo lítið fyrir og skoraði beint úr aukaspyrnunni á 22. mínútu með frábæru marki sem fór í háum boga yfir varnarvegginn upp í hægra hornið.

Það var skammt stórra högga á milli, því að gestirnir fengu dæmda vítaspyrnu á 26. mínútu, en Chris Shields, fyrirliði Linfield, setti of mikinn kraft í skot sitt, og endaði á að skjóta boltanum í slánna og út.

Stjörnumenn höfðu góð tök á leiknum eftir það fram nánast fram að lokum fyrri hálfleiks, en þá gerðu gestirnir mikla atlögu að marki Stjörnunnar. Fengu þeir þá þrjár hornspyrnur í röð, líkt og Stjörnumenn áður, en náðu ekki að nýta þær til þess að jafna leikinn áður en flautað var til hálfleiks. Í einni atrennunni féll leikmaður Linfields við í teignum, og áttu þeir nokkuð sterkt tilkall til þess að fá dæmda aðra vítaspyrnu. Wales-verjinn Iwan Griffiths, ágætur dómari leiksins, stóð hins vegar nærri atvikinu og vísaði kröfum Norður-Íranna þegar í stað á bug.

Stjörnumenn fagna Emil Atlasyni eftir að hann skoraði annað mark …
Stjörnumenn fagna Emil Atlasyni eftir að hann skoraði annað mark sitt og liðsins í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Gestirnir hófu síðari hálfleikinn af svipuðum krafti og þeir luku þeim fyrri, en ekki leið þó á löngu áður en Stjörnumenn voru aftur komnir með undirtökin. Leikurinn var þó frekar jafn og fjörugur, þrátt fyrir að veðrið hefði ekki boðið upp á bestu knattspyrnu í heimi.

Á 58. mínútu báðu gestirnir aftur um víti, en þá töldu þeir að boltinn hefði farið í hönd Kjartans Más Kjartanssonar, sem var á gulu spjaldi. Mikið kraðak var hins vegar í teignum og erfitt að sjá hvort að um hendi hefði verið að ræða.

Mínútu síðar fengu Stjörnumenn svo aukaspyrnu á vítateigslínunni eftir að Óli Valur var felldur í mjög efnilegri sókn. Emil Atlason steig þá aftur upp til þess að taka aukaspyrnuna, en að þessu sinni skaut hann knettinum meðfram jörðinni í þeirri von að veggurinn myndi stökkva upp. Sú varð raunin, en boltinn náði þó ekki undir vegginn, heldur fór aftur til Emils, sem skaut viðstöðulaust. Skoppaði boltinn þá yfir mann og annan og hafnaði í netinu og má segja að Emil hafi skorað óbeint úr aukaspyrnunni.

Heimamenn færðu sig aftar á völlinn eftir seinna mark Emils, en treystu á skyndisóknir til þess að ógna marki gestanna. Fengu þeir í kjölfarið nokkur álitleg tækifæri til þess að bæta við þriðja markinu, þar sem Óli Valur og Örvar ógnuðu mikið með hraða sínum, auk þess sem Emil Atlason fékk ágætis skotfæri á 83. mínútu en náði ekki að fullkomna þrennuna.

Leikmenn Linfields reyndu á sama tíma allt hvað þeir gátu til þess að minnka muninn og koma sér í betri stöðu fyrir heimaleik sinn og komust þeir nokkrum sinnum nærri því að skora. Langhættulegasta færi þeirra kom hins vegar á 84. mínútu þegar Joel Cooper fékk boltann á markteig eftir hornspyrnu, en skot hans geigaði svo munaði einungis örfáum sentímetrum. Þá hefðu þeir einnig getað minnkað muninn í uppbótartímanum eftir klafs inn á markteig.

Stjörnumenn stóðust hins vegar pressuna og standa nú vel að vígi fyrir seinni leik einvígisins, sem fer fram í Belfast eftir nákvæmlega viku. Líklegt er að sá leikur muni þróast allt öðruvísi og ljóst er að leikmenn Linfield munu þar leggja allt í sölurnar til þess að vinna einvígið. Gæti sá leikur því orðið mjög erfiður fyrir Stjörnumenn. Þeir sýndu hins vegar í kvöld að með góðri baráttu og fínum leik úti í Belfast eiga þeir alla möguleika á að tryggja sér farmiðann í næstu umferð.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Stjarnan 2:0 Linfield opna loka
90. mín. Óli Valur Ómarsson (Stjarnan) á skot yfir Fín hornspyrna en Whiteside skallar frá. Óli Valur fær boltann en skotið bæði yfir og framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert