Gerir leikinn úti skemmtilegri

Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttunni í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það var mjög sætt,“ sagði Kristinn Freyr Sigurðsson leikmaður Vals um jöfnunarmark liðsins í 2:2-jafnteflinu gegn Vllaznia frá Albaníu í fyrri leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta á Valsvellinum í kvöld.

Lúkas Logi Heimisson skoraði markið þegar níu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

„Þetta mark gerir leikinn úti skemmtilegri og við erum spenntir fyrir honum. Við rennum ekki eins blint í sjóinn í seinni leiknum. Nú þurfum við að æfa vel og safna orku fyrir leikinn á fimmtudag,“ sagði Kristinn.

Valsmenn voru manni fleiri þegar Vllaznia komst í 2:1, en þeim tókst að bjarga leiknum á allra síðustu stundu.

„Það var klaufalegt að fá mark á sig svona, en svona er fótboltinn. Sem betur fer jöfnuðum við og þetta einvígi er jafnt. Þeir eru fínir fótboltamenn en ef við eigum góðan dag á móti þessu liði vinnum við.“

Nokkur hiti var í þjálfarateymi albanska liðsins og stuðningsmönnum sömuleiðis. Þá fékk albanska liðið sjö spjöld í leiknum, þar af tvö rauð.

„Mér fannst ekkert athugavert við hvernig leikurinn var spilaður og ég skil ekki af hverju það var einhver hiti eftir leik. Þetta var prúðmannlegt og skemmtilegt. Þetta fór ekki yfir neina línu,“ sagði Kristinn.

Kristinn Freyr Sigurðsson
Kristinn Freyr Sigurðsson mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert