Hetja Vals: Var lítið að pæla í því

Jónatan Ingi Jónsson með boltann í kvöld.
Jónatan Ingi Jónsson með boltann í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Lúkas Logi Heimisson var hetja Vals er liðið gerði jafntefli við Vllaznia, 2:2, í 1. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta á Valsvellinum í kvöld. Skoraði hann jöfnunarmark Vals á níundu mínútu uppbótartímans.

„Ég var lítið að pæla hvað var mikið eftir. Ég horfði á klukkuna og sá 90 og svo leið mér eins og það hafi liðið 20 mínútur, þetta leið svo hægt. Ég sá boltann koma af slánni og ég þurfti nánast bara rétt að snerta boltann til að hann fór inn,“ sagði Lúkas við mbl.is eftir leik.

Valsmenn voru manni fleiri þegar varamaðurinn Kevin Dodaj kom albanska liðinu í 2:1. Jöfnunarmark Vals kom síðan á allra síðustu stundu.

Lúkas Logi Heimisson var hetja Vals.
Lúkas Logi Heimisson var hetja Vals. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er fín staða. Það hefði verið sætt að fá heimasigur en það var gott að ná að jafna í uppbótartíma og þetta er fín niðurstaða. Við þurfum að klára leikinn úti.

Mér fannst þetta svipað og að spila við liðin heima. Ég fékk ekki 90 mínútur og upplifði því ekki allan leikinn en mér finnst þetta lið ekki mikið betra en liðin á Íslandi,“ sagði Lúkas.

Stuðningsmenn albanska liðsins voru heitir í leikslok og veittust að gæslumönnum í stúkunni. „Stuðningsmennirnir munu örugglega ekkert trufla okkur úti. Þessi leikur úti leggst vel í hópinn og við erum spenntir,“ sagði Lúkas.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert