Breiðablik tapaði niður tveggja marka forskoti á níu mínútum þegar að liðið tapaði fyrir Tikvesh, 3:2, í fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í Skopje í Norður-Makedóníu í kvöld.
Seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli eftir nákvæmlega viku. Sigurliðið mætir Drita frá Kósovó í annarri umferð.
Blikarnir fóru vel af stað því á 13. mínútu leiksins kom Viktor Karl Einarsson Kópavogsliðinu yfir. Þá fékk hann boltann eftir frábæran undirbúning frá Ísaki Snæ Þorvaldssyni og skaut honum í netið, 1:0.
Kristófer Inig Kristinsson kom Breiðabliki í 2:0 á 30. mínútu leiksins með frábæru skoti. Þá var hann í þröngu færi vinstra megin í teignum eftir sendingu Viktors Karls en smellti boltanum í þaknetið, 2:0.
Staðan var 2:0 fyrir Breiðabliki í hálfleik eftir yfirvegaða frammistöðu.
Heimamenn sóttu í sig veðrið í seinni hálfleik og á 74. mínútu minnkaði Kristian Stojkovski muninn, 2:1. Þá fékk hann boltann eftir frábæra sendingu Ediz Spahiu og setti hann í netið af yfirvegun fram hjá Antoni Ara Einarssyni.
Martin Stojanov jafnaði síðan metin fyrir Tikvesh á 80. mínútu með frábæru marki beint úr aukaspyrnu., 2:2.
Endurkoma Tikvesh var síðan fullkomnuð þremur mínútum síðar en þá kom vararmaðurinn Leo Guerra heimamönnum yfir.
Þá keyrði hann á teiginn og fékk allan tímann í heiminum til að athafna sig og smellti boltanum í fjærhornið, 3:2. Hræðilegar níu mínútur Blikaliðsins.