Ofarlega yfir bestu augnablikin á ferlinum

Karólína dansar af gleði með liðsfélögum sínum í leikslok.
Karólína dansar af gleði með liðsfélögum sínum í leikslok. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Að vinna Þýskaland 3:0 er hrikalega sætt. Þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn Þýskaland,“ sagði kampakát Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar í íslenska landsliðinu unnu það þýska 3:0 og tryggðu sér sæti á lokamóti EM, fimmta skipti í röð.

Karólína leikur með Leverkusen í Þýskalandi en á frekar von á skilaboðum frá Íslendingum en fúlum Þjóðverjum í kvöld.

„Ég fæ held ég aðallega skilaboð frá Íslendingum. Þjóðverjarnir horfa kannski meira á þessa leiki sem æfingaleiki. Fyrir okkur var þetta hrikalega gaman og ég þarf að skoða skilaboðin í kvöld,“ sagði hún og var ánægð með margt í leik Íslands í kvöld.

„Við ógnuðum mikið á móti þeim úti á meðan Sveindís var inni á. Við lærðum af þeim leik og fengum að hafa Sveindísi inn á í 90 mínútur og það hjálpaði. Hún ógnaði vörninni þeirra mikið og leikskipulagið okkar gekk helvíti vel.“

Eins og gefur að skilja var mikið fagnað í leikslok, eftir stórkostlegan sigur gegn einu besta landsliði heims. „Ég get ekki lýst því. Þetta var enginn smá léttir og það er þvílíkt gaman að ná þessu á heimavelli. Þetta er ofarlega yfir bestu augnablikin á ferlinum, með EM á Englandi.“

Þá skapast alltaf hætta 

Ingibjörg Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark leiksins eftir hornspyrnu frá Karólínu. „Markmiðið mitt er að setja boltann inn í teiginn á góðu skallamennina okkar. Boltinn þarf bara að vera fínn og þá skapast alltaf hætta,“ sagði hún.

Ísland leikur við Pólland í lokaleik sínum í riðlinum á þriðjudaginn kemur og getur með sigri tryggt sér efsta sæti riðilsins. Karólína sagði hausinn vera kominn til Póllands, frekar en Sviss þar sem lokamótið fer fram.

„Það er sama gamla klisjan, við hugsum bara um Pólland núna,“ sagði Karólína og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert