„Skelfilegt að svona komi upp“

Valsmenn spiluðu Evrópuleik í gær á móti liði Vllaznia frá …
Valsmenn spiluðu Evrópuleik í gær á móti liði Vllaznia frá Albaníu. mbl.is/Arnþór

„Mér er verulega brugðið,“ segir Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, í samtali við mbl.is, um uppákomur eft­ir Evr­ópu­leik Vals og albanska liðsins Vllaznia að Hlíðar­enda í gær.

Stjórn­ar­menn Vllaznia hótuðu stjórn­ar­mönn­um Vals líf­láti eft­ir leik liðanna, stuðningsmenn Vllaznia veittust að gæslumönnum í stúkunni, hrækt var á fjórða dómara eftir leik og vatnsbrúsa var kastað í aðaldómarann. Þetta herma heim­ild­ir mbl.is.

Birgir segist ekki hafa séð leikinn, en að hann hafi lesið fréttir um málið og honum sé verulega brugðið. 

Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF, Íslensks toppfótbolta.
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF, Íslensks toppfótbolta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýrsla eftirlitsmanns hafi mjög mikið að segja

„Ég þekki það sjálfur að hafa staðið að þessum Evrópuleikjum og ég skil það fullvel að Valsmenn séu smeykir að fara til Albaníu í einhverja óvissu,“ segir Birgir. 

Birgir sjálfur segist ekkert hafa talað við Valsmenn eftir leikinn, hann sé í fríi, en hann segir UEFA með stífa verkferla varðandi Evrópuleiki á þeirra vegum. UEFA sé með óháðan eftirlitsmann á öllum Evrópuleikjum, hann gefi út skýrslu um leikinn strax eftir leikslok sem heimaliðið votti og að hún muni hafa mjög mikið um það að segja hvað gerist í framhaldinu. 

„Ef að þetta er allt saman rétt með morðhótanirnar og að það hafi verið hrækt á dómara og ég veit ekki hvað og hvað, þá verður þetta örugglega einhver sú svartasta skýrsla sem hefur komið frá Íslandi,“ segir hann. 

Hann segir framhaldið í höndum UEFA og að KSÍ vinni náið með þeim.  

„Þetta er skelfilegt að svona komi upp,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert