Þær hörfuðu og voru hræddar

Guðný fagnar með liðsfélögum sínum í kvöld.
Guðný fagnar með liðsfélögum sínum í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Það verður ekki mikið betra en að vinna Þjóðverjana 3:0,“ sagði varnarmaðurinn Guðný Árnadóttir í samtali við mbl.is eftir sigur frækna á Þýskalandi í undankeppni EM í kvöld. Úrslitin þýða að Ísland er komið með farseðilinn á lokamót EM næsta sumar.

„Mér fannst við mjög góðar. Baráttan var okkar megin á meðan þær voru að hörfa undan okkur og voru hræddar. Pressan okkar var að virka vel og það má segja að allt hafi gengið upp. Mér leið alltaf vel.

Það er geggjað að við erum komnar á EM og það var mikið fagnað inni í klefa. Þetta var vel útfærður leikur en það er einn leikur í viðbót en við fögnum 3:0 sigri á Þjóðverjum aðeins lengur í kvöld. Markmiðið okkar er vinna Pólverjana aftur, en það er mjög gott að vera komin á EM,“ sagði Guðný.

Þýskaland er með eitt allra sterkasta lið heims og var gleðin við völd eftir leik.

„Þessi sigur er mjög ofarlega yfir þá bestu, ef hann er ekki sá allra besti. Ég held það verði ekki mikið stærra, sem einn stakur leikur, að vinna Þjóðverjana. Það er geggjað að skora þrjú mörk og halda hreinu.

Ég var ekki að búast við þessu þegar við fórum út á völl í dag, en það var samt tilfinning að við værum að fara að vinna í dag. Að vinna 3:0 er framar vonum,“ sagði Guðný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert