Ef ég á að vera alveg hreinskilinn

Ragnar Bragi Sveinsson er fyrirliði Fylkis.
Ragnar Bragi Sveinsson er fyrirliði Fylkis. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fyrirliði Fylkis Ragnar Bragi Sveinsson var hæstánægður þegar að mbl.is talaði við hann eftir sigur Árbæinga á ÍA, 3:0, í Bestu deildinni í fótbolta á heimavelli í dag. 

Fylkir er nú í næstneðsta sæti með ellefu stig, jafnmörg og Vestri en betri markatölu. Þá eru tvö stig í HK sem er í tíunda sæti.

„Heilt yfir þá leið okkur vel á vellinum allan tímann. Auðvitað kom tími þar sem þeir voru að ýta okkur niður en sköpuðu sér kannski ekkert rosalega mikið. 

Við hittum á daginn okkar. Í fyrri hálfleik sköpuðum við fullt af færum. Við leyfðum miðvörðum þeirra að koma upp með boltann og keyrðum í skyndisóknir. 

Þetta er mjög mikilvægur sigur miðað við stöðuna sem við erum í. 

Við höfum fulla trú á okkur sem lið. Auðvitað snýst þetta líka um að vinna réttu leikina, ef ég á að vera hreinskilinn. 

Það eru meiri líkur að ná í stig gegn ÍA á heimavelli heldur en gegn Val á útivelli. Það er haugur eftir af þessu móti. Þessi gamla góða klisja, bara næsti leikur. 

Við erum núna búnir að vinna þrjá leiki í röð á heimavelli og erum að gera þetta að smá gryfju,“ sagði Ragnar Bragi eftir leik.

Erum með Rúnar og Brynjar Björn

Fylkir mætir Stjörnunni í Garðabænum í næstu umferð. Þjálfari Fylkis Rúnar Páll Sigmundsson þjálfaði Stjörnumenn lengi og Brynjar Björn Gunnarsson, nýr aðstoðarmaður hans, aðstoðaði hann einnig hjá Stjörnunni.

„Við erum með Rúnar Pál og Brynjar Björn núna og þeir ná vonandi að gera þetta að heimavelli fyrir okkur. Fulla ferð þar, við áttum hörkuleik við þá fyrr í sumar þar sem þeir unnu undir blálokinn. 

Við ætlum okkur að ná í þrjú stig þangað.“

Þeir þekkjast mjög vel

Brynjar Björn var í fyrsta sinn á hliðarlínunni hjá Fylki sem aðstoðarþjálfari og byrjar aldeilis vel. Ragnari Braga líst vel á framhaldið með honum. 

„Rúnar og hann þekkjast mjög vel. Brynjar Björn var mjög reyndur alþjóðaleikmaður og hefur verið að þjálfa erlendis. Hann kemur með ró og mikla reynslu inn. 

Við erum spenntir fyrir framhaldinu með honum. 

Maður er búinn að vera svo lengi í þessari baráttu. Það er ekkert stress. Við erum að spila út október, nú þurfum við að núllstilla okkur fyrir næsta leik og sækja sigur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert