Risaatriði sem dómarinn klikkar á

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Þjálfari Skagamanna Jón Þór Hauksson var ósáttur við dómgæsluna þegar að lið hans tapaði fyrir Fylki, 3:0, í Bestu deildinni í fótbolta í Árbænum í kvöld. 

ÍA er með 23 stig í fimmta sæti deildarinnar en liðið náði ekki að fylgja á eftir leiknum gegn HK, sem Skagamenn unnu 8:0.

Jóhannes Björn Vall var nánast sloppinn einn í gegn á 15. mínútu leiksins en Sigurbergur Áki Jörundsson truflaði hann með því að halda í öxlina á Skagamanninum. 

Jóhannes lét sig hins vegar ekki detta og dómarinn Jóhann Ingi Jónsson lét sér fátt um finnast og dæmdi ekkert. Jón Þór var ósáttur við það.

Vorum illa slegnir

„Við vorum illa slegnir út af laginu þegar að við sleppum inn fyrir vörnina hjá þeim og það er brotið á okkur, að okkur fannst. 

Þá er það klárlega rautt spjald og 70 mínútur eftir. Klárt brot og rautt spjald og þeir skora fyrsta markið sitt stuttu eftir það. Þá vorum við alltof slegnir út af laginu. Við náðum okkur ekkert upp í fyrri eftir það.

Mér fannst við gera vel í seinni hálfleiknum og gerðum allt sem við gátum til að snúa honum við en það gekk ekki upp. Fylkir kláraði leikinn með frábærri skyndisókn þegar að við vorum búnir að henda öllu fram. 

Ég óska Fylkismönnum til hamingju með sigurinn,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is. 

Mér finnst það aldrei

Hefði Jóhannes átt að láta sig detta? 

„Neinei, auðvitað finnst mér það aldrei. Dómarinn á bara að dæma leikinn eftir reglum leiksins. Þó að hann detti ekki er klárlega gripið aftan í hann. Það er leikbrot og þeir eru tveir sloppnir í gegn.  

Þetta er risaatriði sem dómarinn klikkar á. En það eitt og sér ræður ekki úrslitum leiksins.“

Gerðu allt nema að skora

Annars var Jón Þór ánægður með seinni hálfleikinn. 

„Við í raun og veru gerðum allt nema að koma boltanum yfir línuna. Ef við hefðum náð marki eins og við áttum að gera hefði það gefið okkur aukinn kraft til að snúa þessu við. En það gerðist ekki og Fylkir kláraði þetta.“

Skagamenn mæta FH í næstu umferð en bæði lið eru að berjast um Evrópusæti. 

„Við þurfum að koma okkur fljótt og vel upp á fætur. Við vorum slegnir hérna í dag og við þurfum að byrja á því áður en hugurinn fer á næsta leik.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert