Frábær undankeppni hjá okkur

Þorsteinn Halldórsson hugsi eftir leik.
Þorsteinn Halldórsson hugsi eftir leik. Ljósmynd/Alex Nicodim

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson var kátur eftir sigurinn á Póllandi á útivelli í kvöld, 1:0, í lokaleik Íslands í undankeppni EM kvenna í fótbolta. Ísland hafði þegar tryggt sér sætið á EM, eftir sigurinn stóra á Þýskalandi síðastliðinn föstudag.

„Við ætluðum að vera skynsöm og ekki keyra okkur út í fyrri hálfleik með mikilli hápressu. Við leyfðum þeim að vera með boltann og biðum eftir að þær gerðu mistök. Við pressuðum meira í seinni hálfleik sem lokaði á þær fyrstu 30 mínúturnar.

Þær voru ekki að skapa sér nein opin færi. Varnarleikurinn var góður og opnuðum þær í seinni hálfleik. Ég er ánægður með leikinn og framlagið hjá liðinu,“ sagði Þorsteinn um leikinn við RÚV eftir leik.

Ísland tapaði aðeins einum leik í riðlinum, tryggði sér EM-sætið fyrir síðasta leikinn og lék vel í undankeppninni.

„Maður fer ekki fram á meira. Við ætluðum okkur að ná öðru af tveimur efstu sætunum. Þetta var frábær undankeppni hjá okkur. Varnarleikurinn var frábær allan tímann og sóknarleikurinn hefur verið að þróast.

Við erum ánægð með að klára þetta hér. Það var vitað að það yrði spennufall eftir sigurinn á Þýskalandi. Við nálguðumst þennan leik af fagmennsku,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert