Miðjuna vantar hjá KA gegn Víkingi

Daníel Hafsteinsson,og Bjarni Aðalsteinsson verða báðir í banni hjá KA.
Daníel Hafsteinsson,og Bjarni Aðalsteinsson verða báðir í banni hjá KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA-menn verða án allra þriggja fastamanna sinna á miðjunni þegar þeir taka á móti Íslands- og bikarmeisturum Víkings í 15. umferð Bestu deildar karla næsta laugardag.

Þeir Daníel Hafsteinsson, Bjarni Aðalsteinsson og Rodrigo Gomes voru allir úrskurðaðir í eins leiks bann í dag af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ. Daníel vegna sjö gulra spjalda og hinir vegna fjögurra.

KR-ingarnir Alex Þór Hauksson og Atli Sigurjónsson missa af leik Vesturbæinga gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli á sunnudagskvöldið. Alex verður í banni vegna rauðs spjalds og Atli vegna fjögurra gulra spjalda.

Þá verða  Tryggvi Snær Geirsson úr Fram og Fatai Gbadamosi úr Vestra báðir í banni í 15. umferð vegna rauðra spjalda. Tryggvi missir af leik Fram gegn Val á sunnudaginn og Fatai verður ekki með Vestra í fallslagnum gegn HK á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert