Ísland hafði betur gegn Póllandi, 1:0, á útivelli í lokaleik liðanna í undankeppni EM kvenna í fótbolta í Sosnowiec í Póllandi í kvöld. Íslenska liðið endar í öðru sæti A4-riðilsins með 13 stig, tveimur stigum á eftir Þýskalandi.
Leikurinn fór rólega af stað en eftir um 20 mínútna leik tók íslenska liðið völdin og skapaði sér nokkur færi. Sveindís Jane Jónsdóttir skaut rétt framhjá á 20. mínútu og tveimur mínútum síðar átti Guðrún Arnardóttir fast skot í slána úr teignum.
Strax í kjölfarið átti Glódís Perla Viggósdóttir hættulegan skalla að marki eftir horn en Kinga Szemik í marki Pólverja varði.
Sókn íslenska liðsins hélt áfram og hún skilaði árangri á 32. mínútu er Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins. Hún vann þá boltann við miðlínuna, brunaði inn í teiginn og skoraði af öryggi.
Pólland fékk fleiri færi eftir markið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Fanney Inga Birkisdóttir þurfti ekki að taka á honum stóra sínum í markinu og fór Ísland með 1:0 forskot inn í hálfleikinn.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og fóru fyrstu 15 mínúturnar nánast einungis á vallarhelmingi pólska liðsins. Alexandra Jóhannsdóttir, Emilía Kiær Ásgeirsdóttir og Guðný Árnadóttir fengu allar færi.
Alexandra skallaði framhjá eftir horn, Guðný fékk gott færi í teignum en Szemik varði og Emilía skallaði framhjá úr dauðafæri eftir að Sveindís skallaði boltann til hennar.
Leikurinn jafnaðist næstu mínútur og var staðan enn 1:0 þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Lítið var um færi á lokakaflanum og Ísland fagnaði sínum fyrsta og eina útisigri í riðlinum.