Verður að taka á sig að dómarinn viti ekki

Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var svekktur við 3:1-tap sinna manna gegn FH í Bestu deildinni í knattspyrnu á útivelli í gær.

Eftir 8:0 tap gegn ÍA á Akranesi í síðustu umferð vildu HK-ingar sýna fram á um slys væri að ræða og voru staðráðnir í að verjast betur og helst halda markinu hreinu í þessum leik.

„Við þurftum að sýna á okkur allt aðra hlið heldur en þá hlið sem við sýndum gegn ÍA. Hvort að það myndi duga til sigurs yrði svo bara að koma í ljós.

Við vorum allt í lagi útá vellinum en fyrsti hálftíminn var erfiður og ekki okkur endilega að þakka að FH væri bara 1:0 yfir á þeim tímapunkti. En við jöfnum svo og komum okkur meira inní leikinn en svo var gríðarlega svekkjandi að fá á sig mark seint í leiknum eftir hornspyrnu, rétt eins og fyrra markið, það kom líka eftir hornspyrnu," sagði Ómar Ingi í viðtali við mbl.is.

Það er hundsvekkjandi

Leikurinn var nokkurn veginn í járnum þangað til að Bjarni Guðjón Brynjólfsson skorar markið sem kemur FH yfir 2:1 á 78.mínútu og það var gríðarlega svekkjandi fyrir Ómar og hans menn sem ætluðu sér að fá meira úr leiknum.

„Mér fannst FH-ingar ekkert líklegir til að skora og við eigum ágætis áhlaup tvisvar, þrisvar. Einhverjir af mínum mönnum vilja meina að fyrirgjöf Birnis Breka (leikmanns HK), hefði farið í höndina á leikmanni FH, þannig að já við vorum að banka eins og þeir þegar að tvö-eitt markið kemur og það úr horni, það er hundsvekkjandi.

Það eru mikil vonbrigði að fá tvö mörk á sig úr horni í stað þess að fá mark á sig þegar við erum sundurspilaðir."

Ómar Ingi fékk gult spjald á 82.mínútu. Fór eitthvað á milli hans og dómara?

„Nei, þetta er annað gula spjaldið sem ég fæ í sumar og í bæði skiptin er það til að komið að þeir vita ekki hver á bekknum var að æsa sig þannig að samkvæmt reglum þá fær þjálfarinn spjaldið, ég verð bara að taka það á mig," sagði Ómar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert