Ætla ekki að leyfa mér að nota þá afsökun

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks.
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Anton

„Þetta var mikil óreiða þessar níu mínútur. Það var ekkert í kortunum að við værum að fara að missa þessa forystu frá okkur,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks en liðið mætir Tikvesh frá Norður-Makedóníu í seinni leik liðana í í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli annað kvöld. 

Breiðablik er 3:2 undir í einvíginu en það tók þá aðeins níu mínútur að missa tveggja marka forystu niður í tap.

„Manni leið helvíti vel og fyrri hálfleikurinn var frábær og bara lengst af vorum við með góð tök á leiknum.

Þroskuð, öguð og fagmannleg frammistaða en svo við þetta fyrsta mark þá ná þeir að henda þessu upp í óreiðu sem við gerum ekki nógu vel að koma í veg fyrir og endaði með mörkum. Við þurfum að vera sterkir þegar á reynir varnarlega.

Menn verða aðeins ragari við að halda boltanum og hafa þannig stjórn á leiknum en líka erum við þannig einhvern veginn að þegar við fáum mark á okkur og þá viljum við bara svara strax fyrir. Þá förum við úr skipulagi og gefum færi á okkur og þeir ná að nýta það.

Það var vissulega heitt en mér fannst það ekki spila inn í, leikurinn var það seint og völlurinn þannig að sólin var ekki að baka mann þannig ég ætla ekki að leyfa mér að nota þá afsökun þótt að eflaust skipti það einhverju máli. Ég og fleiri töluðum um það að manni leið helvíti vel og það var gott gras. Glæsilegur völlur, þjóðarleikvangurinn þarna í Norður-Makedóníu, topp aðstæður,“ sagði Höskuldur í viðtali við mbl.is í dag. 

Næsti leikur fer fram á Kópavogsvelli á morgun og Höskuldur og félagar í Breiðablik búast við öðruvísi leik en var úti.

„Ég held að þeir verði aftar með liðið, og eins og Dóri (Halldór Árnason þjálfari liðsins)  talaði um, að þeir leggi upp með það að verja forskotið sitt þá verður þetta öðruvísi en fyrri leikurinn spilaðist. Þeir voru í pressu en samt ekki svo það var ágætis svæði til að spila á milli lína og svo skorum við frekar snemma og þá fara þeir ennþá framar og við nýttum það vel í fyrri hálfleik þannig það verður forvitnilegt að sjá hvort þeir ætli að mæta okkur strax eða fara strax í að verja forskotið.“

Víkingur datt úr undankeppni Meistaradeildarinnar í gær en fer í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar. Höskuldi fannst ekki gaman að þeirra helsti keppinautur í íslensku deildinni skyldi falla úr keppni enda vont fyrir öll íslensk lið í Evrópukeppni þegar einu gengur illa vegna sætisfjölda Íslands á slíkum mótum. 

„Maður óskar ekkert öðrum liðum að þeim gangi illa, sérstaklega ekki íslenskum liðum. Víkingur er samt ennþá inni í Evrópukeppni og Stjarnan gerði vel og við og Valur eigum ennþá eftir seinni leikinn þannig þó að fyrri leikirnir hafi ekki verið sigrar, við töpum úti og Valur gerir jafntefli heima þá er þetta einvígi ennþá opið.

Eins og við ætlum á morgun að vinna þetta einvígi þá efast ég ekki um að Stjarnan og Valur geri það sama. Það er fullsnemmt að verða svartsýnn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert