Ánægjulegt að eiga heimaleikinn eftir

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Anton

„Það er svo auðvelt að fara í einhverjar greiningar og greina þessi mörk niður í öreindir en fyrst og fremst byrjuðum við of snemma að verja forskotið,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, en liðið mætir Tikvesh á Kópavogvelli á morgun og er 3:2 undir í einvíginu í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildar karla í knattspyrnu.

Blikar voru 2:0 yfir fram á 74. mínútu en töpuðu tveggja marka forskoti á níu mínútum undir lok fyrri leiks liðanna í síðustu viku.

„Við missum hugrekkið að spila okkur út úr stöðum og byrjum að verjast aftar á vellinum sem hleypir þeim framar. Fyrst og fremst fannst mér þetta hugarfarslegs eðlis að missa þetta niður og þar þurfum við að gera betur.

Það var auðvitað einhver þreyta, það var mjög heitt, en fyrst og fremst þurftum við að halda áfram að spila fótbolta, við fórum of snemma í langa bolta og við það opnaðist leikurinn. Hann var svona fyrstu 30 mínúturnar í seinni hálfleik ágætlega lokaður og við líklegri að komast í 3:0 frekar en þeir að skora,“ sagði Halldór í viðtali við mbl.is í dag.

Halldór býst við því að Tikvesh mæti öðruvísi til leiks á morgun enda að reyna að verja forskotið í einvíginu.

„Ég geri ráð fyrir því að þeir reyni að minnka bilið á milli línanna sinna, fari aftar á völlinn og  reyna að hægja verulega á leiknum og verja forskotið.

Við komumst snemma í 2:0 og hefðum getað skorað fleiri mörk ég efast að þetta verði svona opið. Við erum að búa okkur undir það að þetta verði þolinmæðisverkefni.“

Blikar spiluðu í miklum hita og á grasvelli úti en á morgun fá þeir góða gervigrasið á Kópavogsvelli og rigningu samkvæmt veðurspánni.

„Hér höfum við auðvitað okkar völl, sléttan gervigrasvöll sem við þekkjum mjög vel og þægilegra hitastig en var úti.

Ekki síst vitum við líka meira um andstæðinginn, þó við höfum skoðað hann vel fyrir útileikinn þá er öðruvísi að spila á móti þeim. Þetta er hörkulið með góða einstaklinga og við þekkjum þá aðeins betur núna. Okkur líður alltaf vel á Kópavogsvelli svo það er ánægjulegt að eiga heimaleikinn eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert