Fer frá Val til Ítalíu

Adam Ægir Pálsson er á förum til Ítalíu.
Adam Ægir Pálsson er á förum til Ítalíu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Adam Ægir Pálsson er að kveðja Val og gengur til liðs við ítalska félagið Perugia.

Fótbolti.net skýrir frá þessu og segir að allt sé frágengið og einungis eftir tilkynna formlega um félagaskiptin.

Adam er 26 ára gamall kantmaður sem er á sínu öðru tímabili hjá Val en þaðan kom hann frá Víkingi. Adam átti mjög gott tímabil með Keflvíkingum árið 2022, þá sem lánsmaður frá Víkingi.

Hann hefur spilað þrettán af fjórtán leikjum Vals í Bestu deildinni í ár, fjóra þeirra í byrjunarliði, og skorað eitt mark. Það kom í síðasta leik, gegn Fylki, og það reyndist vera kveðjuleikur hans á Íslandsmótinu með Hlíðarendaliðinu.

Adam á samtals að baki 83 leiki í efstu deild og hefur skorað í þeim 18 mörk.

Perugia leikur í ítölsku C-deildinni og endaði í fjórða sæti í sínum riðli í vetur en komst ekki í gegnum langt umspil um sæti í B-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert