Höskuldur einn þriggja frá upphafi

Höskuldur Gunnlaugsson leikur á Tikvesh-mann í leiknum í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson leikur á Tikvesh-mann í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks náði stórum áfanga í kvöld þegar hann skoraði annað mark liðsins í sigrinum á Tikvesh frá Norður-Makedóníu, 3:1, í undankeppni Sambandsdeildarinnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

Þetta var hans tíunda mark fyrir Breiðablik í Evrópukeppni og hann er aðeins þriðji leikmaðurinn sem nær að skora tíu mörk fyrir íslensk lið í Evrópuleikjum karla frá upphafi.

Atli Guðnason er markahæstur en hann skoraði 11 mörk fyrir FH í Evrópukeppni á sínum tíma.

Tryggvi Guðmundsson er síðan með 10 mörk eins og Höskuldur en sex þeirra fyrir FH og fjögur fyrir ÍBV.

Næstir á eftir þeim eru svo Kjartan Henry Finnbogason sem skoraði 8 Evrópumörk fyrir KR og Steven Lennon sem skoraði 8 Evrópumörk fyrir FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert