Lá beinast við að hamra eins fast og ég gat

Höskuldur Gunnlaugsson í eldlínunni í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik er komið í aðra umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir 3:1 sigur á Tikvesh á Kópavogsvelli í kvöld og samanlagt 5:4 í einvíginu.

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks og einn af markaskorurum leiksins var glaður í bragði þegar mbl.is náði af honum tali strax eftir leik.

Þið fóruð erfiðu leiðina í gegnum verkefnið með því að tapa fyrri leiknum og hefja þennan leik með því að fá mark á ykkur í upphafi leiks. Hvernig var tilfinningin þegar þið lendið 1:0 undir hér í kvöld?

Arnþór Birkisson

„Það var mikið högg af því að við vorum miklu betri en kannski var betra að þetta hafi gerst alveg í upphafi frekar en síðar í hálfleiknum. Við gerðum samt vel með því að halda tempói og spila hratt. Okkur tókst að þreyta þá á svona rennandi blautu grasinu. Síðan var mjög mikilvægt að ná að jafna fyrir hálfleik og eftir það var þetta aldrei spurning í mínum huga."

Þú skorar annað mark Breiðabliks með glæsilegu skoti. Sástu hann alltaf inni í þessu skoti?

„Grasið var bara svo blautt og það var gott rými fyrir framan mig þannig að það lá beinast við að hamra bara eins fast og ég gat á markið og það endaði svona vel í horninu niðri. Boltinn fleytti bara kerlingum á leiðinni í netið."

Arnþór Birkisson

Næsti Evrópuleikur er gegn Drita frá Kósóvó. Veistu eitthvað um það lið?

„Nei voðalega lítið. Þetta var bara það alvarleg staða sem við vorum í þar sem við vorum undir. Þetta var mjög gott lið sem við vorum að mæta og ég veit að það er búið að eyða fullt af peningum í það fyrir þessa Evrópukeppni.

Þetta var svo skrýtið lið. Kaflaskiptir þar sem þeir breytast í alvöru sambabolta í bland við að vera alveg agalausir. Þetta var mjög erfitt verkefni. Ég veit bara að við byrjum heima í næstu umferð."

Næsti leikur hjá ykkur er gegn KR og Alexander Helgi Sigurðarson er einmitt búinn að semja við KR-inga eftir tímabilið. Ætlar Breiðablik að refsa KR fyrir að taka leikmanninn ykkar?

„Já verðum við ekki að gera það?" sagði Höskuldur hlæjandi og hélt svo áfram:

„Lexi er búinn að vera frábær og dyggur þjónn hérna í Breiðabliki og þetta er bara eins og gerist í fótbolta, minna hérna heima reyndar þar sem leikmenn semja fyrirfram við önnur lið.

Þetta er svolítið þýska leiðin. En það er bara fínt að þetta sé bara komið út og þá getur hann bara fókusað á restina af tímabili með Breiðablik," sagði Höskuldur í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert