Léttir í bland við gleði

Kristinn Steindórsson á fleygiferð í kvöld.
Kristinn Steindórsson á fleygiferð í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks var ánægður með að vera kominn áfram í aðra umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu þegar liðið vann Tikvesh frá Norður-Makedóníu á Kópavogsvelli í kvöld. Mbl.is ræddi við Halldór strax eftir leik.

Það hlýtur að vera léttir að hafa komist áfram í ljósi þess hvernig fyrri leikurinn fór og þessi leikur byrjaði?

„Já það er léttir í bland við gleði. Það er auðvitað gleðin sem er ofan á núna. Það er sérstaklega í ljósi þess að við byrjum hérna einu marki í mínus eftir fyrri leikinn þar sem við vorum mikla betra lið. Síðan er mikið högg að fá hérna mark í andlitið í upphafi. Það reynir á karakterinn og menn svöruðu því vel.

Arnþór Birkisson

Menn voru agaðir á sama tíma og þeir pressuðu mikið, sköpuðu færi og það gaf fyrir hálfleik sem var gríðarlega mikilvægt. Okkur tókst að endurstilla okkur í hálfleik og komum síðan inn í síðari hálfleikinn og kláruðum þetta."

Á 94. mínútu þá fá þeir aukaspyrnu á hættulegum stað sem endaði síðan með alvöru skoti. Hvernig var hjartslátturinn þegar þeir voru að taka spyrnuna í ljósi þess sem gerðist í fyrri leiknum?

„Þegar hann er að taka aukaspyrnuna þá var ég að blóta því hvernig við leyfðum þeim að komast í þessa stöðu að fiska þessa aukaspyrnu. En jú það fór um mann í ljósi þess að þeir skoruðu úr aukaspyrnu á mikilvægum tímapunkti í fyrri leiknum en sem betur fer þá varði Anton þetta vel."

Arnþór Birkisson

Næsti leikur í Evrópukeppni er á móti Drita frá Kósóvó. Veistu eitthvað um það lið?

„Já Drita er gott lið eins og liðin frá þessu landi. Þeir sátu hjá í fyrstu umferð þar sem þeir eru það ofarlega á styrkleikalistanum þannig að þeir eru erfiðir. Við eigum ekkert efni um þá úr fyrstu umferðinni þar sem þeir sátu hjá en þeir hafa spilað æfingaleiki og við þurfum að skoða það en fyrst er það leikur á sunnudag gegn KR."

Að leiknum á sunnudag gegn KR. Nú er það ljóst að Alexander er á leiðinni í KR eftir þetta tímabil. Nú er hann einn af þínum lykilmönnum á þessu tímabili. Verður hann á skýrslu í leiknum gegn KR?

„Ef hann er heill þá ekki spurning."

Arnþór Birkisson

Þannig að það er engin ákvörðun um að hann spili ekki þennan leik í ljósi þess að hann er að ganga til liðs við þá eftir tímabilið?

„Nei í rauninni er það þannig að Alexander er með samning við Breiðablik út tímabilið og það er þannig að þegar það er hálft ár eftir af samningi þá er leikmönnum frjálst að semja við önnur lið og sá samningur tekur gildi þegar samningurinn við Breiðablik rennur út í nóvember.

Það voru engar samningaviðræður milli Alexanders og Breiðabliks þannig að það er svo sem eðlilegt að hann vilji tryggja sína framtíð og kannski reyna ferlinum aftur af stað í ljósi þess að hann hefur verið mikið meiddur á ferlinum, því miður því hann er frábær leikmaður.

Arnþór Birkisson

Ef allt gengur að óskum þá klárar hann tímabilið hér og verður stór hluti af okkar liði og við óskum honum góðs gengis þegar hann fer en það er ekki komið að því."

Verður erfitt að mótivera liðið fyrir deildarleik á sunnudag svona stuttu eftir svona Evrópuleik?

„Nei það held ég ekki. Þetta þarf allt að haldast í hendur. Þú þarft að taka þessar tilfinningar sem fylgja Evrópuleikjunum og nota sem drifkraft inn í deildina og við ætlum að gera það. Ég er bara spenntur fyrir leiknum á sunnudag,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert