Ólsarar óvænt úr leik – Strax á skotskónum hjá Selfossi

Árbæingar fagna marki gegn Víkingi Ólafsvík.
Árbæingar fagna marki gegn Víkingi Ólafsvík. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Árbær skellti Víkingi Ólafsvík, 3:2, í 16 liða úrslitum bikarkeppni neðrideilda í knattspyrnu karla í Breiðholtinu í gærkvöldi. 

Fótbolti.net er styrktaraðili bikarsins en allir leikir 16-liða úrslitanna fóru fram í gær. 

Óvæntustu úrslitin áttu sér stað í Árbænum en Árbær leikur í 3. deildinni og Ólafsvíkingar eru í toppbaráttu í 2. deild. 

Mörk Árbæjar skoruðu Eyþór Ólafsson, Sigurður Karl Gunnarsson og Djordje Panic. Mörk Víkings skoruðu Eyþór Örn Eyþórsson og Anel Crnac. Þetta er annað árið í röð sem Árbæingar vinna bikarsigur á Ólafsvíkingum en þeir slógu þá einnig út í 1. umferð bikarkeppni KSÍ fyrir rúmu ári síðan.

Skoraði strax fyrir Selfoss

Nacho Gil kom Selfossi yfir á 9. mínútu leiksins í sigri liðsins á KFG, 3:1, í viðureign 2. deildarliðanna á Selfossi. 

Nacho er nýkominn til Selfoss frá Vestra og var ekki lengi að koma sér á blað. 

Hin mörk Selfyssinga skoruðu Gonzalo Zamorano og Alexander Vokes. Mark KFG skoraði Róbert Kolbeins Þórarinsson. 

KFA og Haukar sannfærandi

KFA og Haukar unnu sannfærandi sigur á sínum mótherjum í 16-liða úrslitunum. 

Haukaliðið vann Völsung, 4:1, í viðureign tveggja liða úr 2. deild í Hafnarfirðinum. 

Fyrstu tvö mörk Hauka skoruðu nýju mennirnir Andri Már Harðarson og Guðmundur Axel Hilmarsson. Þeir komu í vikunni í láni frá HK og Þrótti R.

Gestur Aron Sörensson minnkaði muninn fyrir Völsung á 43. mínútu en undir lok leiks bættu Frosti Brynjólfsson og Magnús Ingi Halldórsson við þriðja og fjórða marki Hauka. 

KFA úr 2. deild vann þá topplið 4. deildar, Ými, 6:0 í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.

Mörk Austfjarðarliðsins skoruðu Marteinn Már Sverrisson með tvö, Þór Sigurjónsson, Julio Cesar Fernandes, Daniel Michal Grzegorzsson og Nenni Þór Guðmundsson.

Vængirnir afgreiddu KFK á 20 mín

Vængir Júpíters unnu KFK, 4:0, í baráttu 3. deildarliðanna á Fjölnisvellinum. Öll mörk Grafarvogsliðsins komu á fyrstu 21. mínútu leiksins. 

Almar Máni Þórisson skoraði tvö mörk fyrir Vængina en Daníel Smári Sigurðsson og Aðalgeir Friðriksson skoruðu einnig. 

Augnablik úr 3. deild vann þá góðan útisigur á 2. deildarliði KF á Ólafsfjarðarvelli, 2:1. 

Agnar Óli Grétarsson kom KF yfir á 3. mínútu en tvö sjálfsmörk heimamanna frá Jordan Damachoua sendu Augnablik áfram. 

Tindastóll vann KH, 2:1, í viðureign 4. deildarliðanna á Sauðárkróksvelli. Mörk Tindastóls skoruðu Jónas Aron Ólafsson og Manuel Ferriol Martínez. Mark KH skoraði Luis Carlos. 

Kolbeinn Tumi Sveinsson skoraði þá sigurmark Kára í 1:0-sigri á Magna frá Grenivík í 3. deildarslag á Akranesi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert