Þrenna Mána og níu stiga forskot Fjölnis

Bjarni Þór Hafstein kemur Fjölni yfir án þess að Aron …
Bjarni Þór Hafstein kemur Fjölni yfir án þess að Aron Dagur Birnuson í marki Grindavíkur fái nokkuð að gert. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjölnismenn náðu í kvöld níu stiga forystu í 1. deild karla í knattspyrnu þegar þeir unnu stórsigur á Grindvíkingum, 5:1, í fyrsta leik þrettándu umferðar í Grafarvogi.

Grafarvogsliðið er komið með 30 stig á toppnum en Njarðvíkingar eru með 21 stig og eru að spila við Leikni úr Reykjavík á heimavelli þessa stundina. Grindvíkingar eru í sjötta sæti með 17 stig og gætu endað neðar í kvöld.

Máni Austmann Hilmarsson fór á kostum með Fjölni og skoraði þrennu en hann er nú orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar með 10 mörk.

Bjarni Þór Hafstein kom Fjölni yfir eftir tíu mínútna leik en Josip Krznaric jafnaði fyrir Grindavík á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Eftir 15 mínútur í síðari hálfleik fékk Fjölnir vítaspyrnu og Dennis Nieblas varnarmaður Grindavíkur rautt spjald. Máni skoraði úr vítaspyrnunni, 2:1.

Hann bætti síðan við tveimur mörkum gegn tíu Grindvíkingum og Axel Freyr Harðarson einu áður en yfir lauk og stórsigur Fjölnis var í höfn, 5:1.

Matevz Turkus hjá Grindavík og Guðmundur Karl Guðmundsson fyrirliði Fjölnis …
Matevz Turkus hjá Grindavík og Guðmundur Karl Guðmundsson fyrirliði Fjölnis í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert