Valur með einn af fjórum stærstu

Valsmenn fagna einu af sex mörkum sínum í einvíginu við …
Valsmenn fagna einu af sex mörkum sínum í einvíginu við Vllaznia frá Albaníu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Útisigur Valsmanna gegn Vllaznia í Albaníu í kvöld, 4:0, er einn af fjórum stærstu sigrum íslensks karlaliðs í knattspyrnu á útivelli í Evrópukeppni.

KR-ingar eiga stærsta útisigurinn en þeir unnu Glenavon á Norður-Írlandi, 6:0, árið 2016.

Valsmenn deila síðan þeim næststærsta með tveimur öðrum liðum.

Keflavík vann Etzella á útivelli í Lúxemborg, 4:0 árið 2005 þar sem Hörður Sveinsson skoraði öll fjögur mörkin, sá eini sem hefur afrekað það með íslensku liði í Evrópuleik.

Stjarnan vann Bangor City á útivelli í Wales, 4:0, árið 2014.

Fyrir leikinn í kvöld höfðu Valsmenn aðeins unnið tvo Evrópuleiki af 33 á útivelli í Evrópukeppni. Þeir sigruðu MyPa í Finnlandi, 1:0, árið 1993 og síðan Cork City, 1:0, á Írlandi árið 2007.

Þá var þetta jafnframt fyrsti sigur Vals í síðustu tíu Evrópuleikjum, eða frá því þeir unnu Sheriff Tiraspol á Hlíðarenda, 2:1, með sigurmarki Patricks Pedersens árið 2018.

Frá þeim tíma hafði Valur gert tvö jafntefli og tapað sjö sinnum í síðustu níu Evrópuleikjum sínum.

Í heildina var þetta 68. Evrópuleikur Vals frá upphafi og 11. sigurinn, en þeir hafa gert 14 sinnum jafntefli og tapað í 43 skipti.

Þá er þetta í fimmta skipti af 34 sem Valur vinnur einvígi í Evrópukeppni. Valsmenn slógu Jeunesse d'Esch frá Lúxemborg út árið 1967, MyPa frá Finnlandi árið 1993, Ventspils frá Lettlandi árið 2017 og Santa Coloma frá Andorra árið 2018.

Kristinn Freyr Sigurðsson varð í kvöld þriðji Valsmaðurinn til að skora þrjú mörk eða fleiri fyrir félagið í Evrópukeppni. Hann jafnaði við Sigurð Egil Lárusson, sem er einnig með þrjú Evrópumörk fyrir félagið.

Markahæstur Valsmanna er hins vegar hinn eini sanni Hermann Gunnarsson sem skoraði fimm Evrópumörk á fyrstu árum Vals í Evrópukeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert