Framlengdi um tvö og hálft ár á Flórída

Dagur Dan Þórhallsson í leik með Orlando City.
Dagur Dan Þórhallsson í leik með Orlando City. AFP/Alex Menendez

Knattspyrnumaðurinn Dagur Dan Þórhallsson hefur framlengt samning sinn við bandaríska félagið Orlando City og gildir hann til ársloka 2026, eða í tvö og hálft ár til viðbótar.

Þá er ákvæði í samningnum um mögulega framlengingu út tímabilið 2027.

Dagur kom til Orlando frá Breiðabliki í ársbyrjun 2023 og hefur fest sig í sessi hjá félaginu á Flórída sem leikur í bandarísku MLS-deildinni. Hann hefur leikið 65 mótsleiki fyrir Orlando, þar af 57 í MLS-deildinni, og verið í byrjunarliðinu í 40 þeirra.

Á yfirstandandi tímabili í MLS hefur Dagur verið í byrjunarliði í 22 leikjum af 24 og ekki misst úr leik en liðið er í sjöunda sæti Austurdeildar og stendur vel að vígi með að komast beint í úrslitakeppnina.

„Allt frá því Dagur kom til félagsins hefur hann sýnt að hann er mjög fjölhæfur og með mikla aðlögunarhæfni, og verið tilbúinn til að leysa af hendi allar þær stöður sem félagið hefur krafist af honum. Hann er mikill atvinnumaður, innan vallar sem utan, og við erum spennt fyrir því að hafa hann í okkar félagi næstu árin," segir framkvæmdastjóri Orlando City, Luiz Muzzi, á heimasíðu félagsins.

Dagur er 24 ára gamall og leikur ýmist sem bakvörður eða miðjumaður. Hann hóf meistaraflokksferilinn 16 ára með Haukum árið 2016, var í röðum Gent í Belgíu um skeið og lék með Keflavík í efstu deild 2018.

Þaðan fór hann til Noregs og lék með Mjöndalen og Kvik Halden árin 2019 og 2020 en kom síðan heim til Íslands, lék með Fylki í úrvalsdeildinni 2021 og með Breiðabliki 2022.

Hann á að baki fjóra A-landsleiki og 28 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert