„Horfum bara upp á við“

Víkingur vann sterkan útisigur á Þór/KA í kvöld.
Víkingur vann sterkan útisigur á Þór/KA í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Gígja Valgerður Harðardóttir er gengin í endurnýjun lífdaga sem leikmaður í Bestu deildinni í fótbolta. Gígja var upp á sitt besta fyrir rúmum áratug með Þór/KA. Hún er núna langelst í liði Víkinga, sem eru að gera góða hluti sem nýliðar í deildinni.

Í kvöld var hún á gamla heimavellinum þar sem Víkingur lagði Þór/KA 2:0. Þótti einsýnt að fá Gígju í viðtal en blaðamaður mbl.is þurfti að trufla hana frá því að knúsa börnin sín tvö. Þau biðu stillt og prúð á meðan móðir þeirra lét gamminn geisa.

„Ég spilaði hérna með HK/Víkingi fyrir nokkrum árum en hef verið í smá pásu að hugsa um annað síðustu ár. Það var gaman að koma aftur og sjá allar myndirnar upp á veggjunum en ég var hérna hjá Þór/KA í nokkur ár. Sumir samherjar mínir í dag voru ekki fæddir þegar ég spilaði fyrst í meistaraflokki og þegar ég var hjá Þór/KA þá voru margar þeirra bara litlar stelpur. Þetta er því dálítið skemmtilegt.“

Nú er Gígja komin á fullt aftur og er þá að taka seinni skammtinn sinn í boltanum.

„Það er bara mjög gaman að vera komin aftur í efstu deild og samherjar mínir taka ekkert eftir því að ég sé miklu eldri en margar þeirra. Þetta eru mjög góðar og skemmtilegar stelpur.“

Það má alveg segja um liðið ykkar að það sé óútreiknanlegt. Þið hafið unnið Breiðablik og Þór/KA í deildinni, unnuð Val í Meistarakeppninni en eigið í vandræðum með liðin í neðstu sætunum. Er ekki næsta skref að ná meiri stöðugleika og fá fleiri stig gegn liðunum fyrir neðan ykkur?

„Það virðist vera auðveldara að gíra liðið upp fyrir leikina á móti stærri liðunum. Við þurfum að ná því að breyta þessu og koma svona einbeittar í alla leiki. Við viljum fara eins ofarlega og hægt er og horfum bara upp á við.“

Arnar Gunnlaugsson sagði þetta einmitt margoft fyrir nokkrum árum þegar karlalið Víkinga var í svipaðri stöðu og þið. Nú eru lið hans iðulega á toppnum. Það á að koma sama hugarfari inn hjá ykkur. Verðið þið komnar í toppslaginn næstu tímabil?

„Við erum nýliðar í deildinni og markmiðið var ekki að halda bara sætinu í deildinni í sumar. Við viljum vera eitt af bestu liðunum og í ár varmarkmiðið að festa liðið í sessi sem efstu-deildar lið. Vonandi tekst svo að byggja ofan á það og styrkja liðið og bæta árangurinn á næstu árum“ sagði Gígja Valgerður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert