Snýr aftur til Íslands og nú í Þrótt

Melissa Garcia, til hægri, í leik með Tindastóli gegn ÍBV …
Melissa Garcia, til hægri, í leik með Tindastóli gegn ÍBV í fyrra. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Bandaríska knattspyrnukonan Melissa Garcia, sem gerði það gott með Tindastóli í Bestu deildinni á síðasta ári, er komin aftur til Íslands eftir vetrardvöl í Póllandi.

Melissa, sem er 33 ára og með ríkisfang í Lúxemborg, auk heimalandsins,, er gengin til liðs við Þrótt og kemur til Reykjavíkurliðsins frá Bielsko-Biala í Póllandi sem hún lék með í vetur.

Hún var í stóru hlutverki hjá Tindastóli í fyrra og átti mikinn þátt í að liðið hélt sér í Bestu deildinni. Melissa lék alla leiki liðsins í deildinni, 21 að tölu, og var næstmarkahæst með sex mörk.

Árið 2022 tók hún þátt í að koma Skagafjarðarliðinu upp í Bestu deildina, kom þá á miðju sumri og skoraði fjögur mörk í síðustu sjö leikjunum í 1. deildinni.

Þar á undan lék Melissa hluta tímabilsins 2020 með Haukum í 1. deild en í millitíðinni með Vllaznia í Albaníu. Hún hefur einnig spilað með áströlsku liðunum Preston Lions og Heidelberg United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert