Víkingskonur sóttu sigur í Þorpinu

Víkingar fagna fyrsta marki leiksins.
Víkingar fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þrettánda umferðin í Bestu deild kvenna í fótbolta hófst í kvöld með leik Þórs/KA og Víkings á Þórsvellinum á Akureyri. Liðin buðu upp á jafnan og spennandi leik þar sem Víkingur nýtti færin sín og vann 2:0.

Þór/KA er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig en Víkingur er kominn í fjórða sætið og er núna með 19 stig.

Leikurinn byrjaði með miklum látum en fljótlega róaðist hann. Heimakonur voru töluvert meira með boltann og þær náðu stöku sinnum að ógna marki Víkinga. Næst komst Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir að skora en Birta Guðlaugsdóttir í marki Víkinga varði stórkostlega þannig að boltinn fór í slána og út í teiginn.

Skömmu síðar kom eina mark fyrri hálfleiks. Víkingar skoruðu þá glæsilegt mark. Freyja Stefánsdóttir fann Selmu Dögg Björgvinsdóttur aleina úti við vítateigshornið hægra megin. Hún fékk nægan tíma til að líta upp og sendi svo góðan bolta inn á miðjan markteiginn. Þar stakk Bergþóra Sól Ásmundsdóttir sér fram og dúndraði boltanum í netið. Bergþóra Sól var því ekki lengi að stimpla sig inn í deildina að nýju.

Staðan var 1:0 fyrir Víking í hálfleik. Leið svo og beið lengi vel í seinni hálfleiknum og ekki kom annað mark. Hulda Ósk Jónsdóttir fékk dauðafæri en Birta Guðlaugsdóttir varði frá henni. Víkingskonur börðust svo mjög vel út allan leikinn og héldu sínu. Á lokasekúndunum skoraði svo Linda Líf Boama annað mark fyrir Víkinga til að strá salti í sár heimakvenna.

Þór/KA hefur nú tapað fjórum leikjum í röð á heimavelli, einum bikarleik og þremur í deildinni. Liðið fékk sín færi en klúðraði þeim ýmist með því að hitta ekki boltann eða öðru óðagoti. Birta Gunnlaugsdóttir í marki Víkinga varði svo stórkostlega í tvígang og því fór sem fór.

Birta var örugg í öllum sínum aðgerðum en heilt yfir var varnarleikur Víkinga sterkur með Ernu Guðrúnu Magnúsdóttur í broddi fylkingar.

Heimakonur áttu í stökustu vandræðum með að spila sig í gegn og beittu mikið löngum sendingum sem skiluðu engu. Karen María Sigurgeirsdóttir reyndi að dreifa boltanum og gerði það ágætlega en lítið kom frá Söndru Maríu Jessen og Huldu Ósk Jónsdóttur.

Sandra María Jessen úr Þór/KA á fleygiferð í kvöld.
Sandra María Jessen úr Þór/KA á fleygiferð í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Þór/KA 0:2 Víkingur R. opna loka
97. mín. Leik lokið Víkingur fer upp í fjórða sætið en Þór/KA tapar fjórða leiknum sínum í röð á heimavelli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert