Alls ekki okkar besti leikur

Elín Helena Karlsdóttir.
Elín Helena Karlsdóttir. mbl.is/Eggert Johannesson

„Það var smá æsingur í lokin en ég er mjög fegin að við náðum að klára þetta,“ sagði Elín Helena Karlsdóttir, leikmaður Breiðabliks í Bestu deild kvenna í fótbolta, eftir 1:0-sigur á Stjörnunni í dag.

„Þetta var mjög erfitt. Þær voru þéttar til baka, spiluðu góðan varnarleik og við áttum erfitt með að brjóta þær upp en það tókst að lokum. Svo var smá æsingur í lokinn en ég er mjög feginn að við náðum að klára þetta.

Þetta var alls ekki okkar besti leikur. Þær spiluðu góðan vörn og það var erfitt að brjóta þær niður. Við vorum mikið með boltann en náðum ekki að skapa okkur eins mikið og við vildum, þær gerðu okkur erfitt fyrir en við náðum að brjóta þær sem betur fer,“ sagði Elín í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Stjarnan setti boltann í netið á 84. mínútu þegar þær voru 1:0 undir en dómarinn dæmdi markið af, það skildu fáir hvað var verið að dæma á en Elín er feginn.

„Ég veit ekkert hvað gerðist þar. Ég spurði hann og hann sagði ekki hvað hann var að dæma á en ég er mjög feginn.“

Allt sauð upp úr á 88. mínútu þegar Elín og Hulda Hrund Arnarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, fóru báðar niður inni í vítateig Stjörnunnar. Leikmenn og stuðningsmenn Stjörnunnar vildu víti en Elín er sammála dómaranum.

„Ég fann að það var sparkað í mig þegar ég var að sparka í boltann, ég veit ekkert hvort ég tók einhvern með mér eða ekki en ég fann að það var farið aftan í mig og vonandi sá dómarinn þetta rétt.“

Breiðablik er eins og staðan er núna á toppi deildarinnar með 36 stig en Valur er rétt á eftir þeim og á leik inni.

„Við ætlum að reyna að halda okkur á toppnum. Við þurfum að klára okkar leiki og ekki hugsa um hvað Valur eða hin liðin eru að gera, bara klára okkar og þá kemur þetta í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert