Allt mér að kenna segir fyrirliðinn

Leifur Andri Leifsson í baráttu við Tarik Ibrahimagic í Kórnum …
Leifur Andri Leifsson í baráttu við Tarik Ibrahimagic í Kórnum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

„Mér finnst þetta ekki flóknara en það þetta eru bara tvö stig sem skrifast á mig fyrir ömurleg mistök í fyrri hálfleik,“ sagði Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK eftir 1:1 jafntefli þegar liðin áttust við í fyrsta leik 15. umferðar efstu deildar karla í fótbolta í Kórnum í dag.

„Mér fannst við vera með tögl og hagldir á þessum leik en það var bara eitt augnablik sem maður gerir hrikaleg mistök og ég verð að taka það á mig. Ég vissi alveg að Vestramenn myndu koma ákveðnir í leikinn og þetta snerist bara um augnablikin.  Við fengum okkar þegar við komum boltanum vel inn í teiginn og fleira en þetta hefði getað fallið hjá hvoru liðinu.  Þá er jafntefli jafnvel sanngjörn niðurstaða en markið þeirra var gjöf frá mér og það er mest svekkjandi í þessu,“ sagði fyrirliðinn.

HK er í 10. sæti deildarinnar með þremur stigum minna en Stjarnan, einu minna en KA og jafnmörg og KR, 14, en markatalan er mun slakari en ofangreind lið.  Svo er HK með tveimur stigum meira en Vestri í 11. sæti og þremur betur en Fylkir í neðsta sætinu og Leifur Andri örvæntir ekki. „Það er nóg eftir að þessu móti, þetta snýst bara um að safna eins mikið af stigum og þú getur.  Við höfum verið slappir við það í síðustu tveimur leikjum og það er þó gott að við stig úr þessu í dag.  Við horfum svo björtum augum á framtíðina,“ bætti Leifur Andri við en hann mætti á leikstað 45 mínútum fyrir leik, var að eignast son.

Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK.
Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK. mbl.is/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert