Blikarnir refsa um leið og þú gerir mistök

Jóhannes Karl Sigursteinsson.
Jóhannes Karl Sigursteinsson. Ljósmynd/Stjarnan

Það var sárt að tapa þessu,“ sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, nýráðinn þjálfari Stjörnunnar í Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir 1:0-tap gegn Breiðabliki á heimavelli í dag.

Þetta var hans fyrsta tap sem þjálfari liðsins en Stjarnan gaf toppliði Breiðabliks góðan leik.

„Þetta spilaðist eins og maður átti von á, við þurftum að verjast, Blikar voru meira með boltann en lítið að skapa.

Fyrstu 15-20 í seinni hálfleik þá náum við ákveðnum tökum á leiknum og þá hefði mark þurft að detta okkar megin því við vitum að Blikarnir refsa um leið og þú gerir mistök. Það gerist í dag, við gerum mistök og þeir þurfa ekki mörg færi til að klára leiki.“

Stjarnan skoraði á 84. mínútu eftir krafs í teignum en markið var dæmt af.

„Ég sá ósköp lítið, þetta er fjærst okkur og einhver þvaga. Það er erfitt fyrir mig að dæma það og dómarinn er vel staðsettur en ég held það hafi ekki verið mikið í þessu. Hann tekur auðvelda kostinn og ákveður að dæma aukaspyrnu.“

Stjarnan vildi svo víti stuttu síðar.

„Í rauninni held ég að við getum lítið pælt í dómaranum, hann tekur sínar ákvarðanir. Ég vil taka það jákvæða út úr þessu, að við erum að koma okkur í þessa stöðu inn í teig að vera að ógna og láta finna fyrir okkur. Hlutirnir detta með okkur á endanum ef við höldum áfram að koma okkur í leikstöður sem skipta máli.“

Stjarnan er þessa stundina í 7. sæti með 13 stig, jafn mörg og Þróttur í 6. sæti, og verður í neðri hluta deildarinnar ef staðan verður svona eftir fimm umferðir.

„Miðað við spilamennskuna í dag þá er markmiðið fyrst og fremst að bæta ofan á hana og ég held að ef að það gerist þá eigum við heima ofar í deildinni en við erum í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert