„Þetta er sama tuggan. Þær gerðu tvö mörk og við eitt og það skilur að,“ sagði Guðni Eiríksson þjálfari FH í samtali við mbl.is eftir að liðið mátti þola tap, 2:1, gegn Þrótti á útivelli í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag.
„Mér fannst meðbyr með okkur þegar við fáum fullt af góðum tækifærum. Við vorum óheppin að boltinn hafi ekki farið inn, á meðan þær gera gott mark á móti okkur. Það var gott hjá þeim en við áttum að vera búin að klára þetta fyrir það.
Þetta var kaflaskipt, sem er ekki óvenjulegt fyrir okkur. Við vorum að spila kerfi sem við höfum ekki spilað mikið í sumar. Góðu kaflarnir voru mjög góðir hjá okkur. Við sköpuðum mikið en fengum ekki mörg opin færi á okkur,“ sagði Guðni um leikinn.
Hann vildi fá víti í blálokin þegar Breukelen Woodard fór niður innan teigs eftir baráttu við varnarmann Þróttara.
„Við áttum að skora í lokin og fá víti. Það var svekkjandi að dómarinn hafi ekki haft pung til að dæma það. Það var klárt víti,“ sagði Guðni ósáttur.
Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH fór af velli þegar um 20 mínútur voru til leiksloka en hún lék með vafning um lærið. „Hún er þokkaleg. Hún finnur aðeins til í lærinu. Hún hefði getað haldið áfram en við tökum enga sénsa,“ sagði Guðni.