Elska að vera á Íslandi

Melissa Garcia í leik með Tindastóli. Hún skoraði sigurmark Þróttar …
Melissa Garcia í leik með Tindastóli. Hún skoraði sigurmark Þróttar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður vel. Ég elska liðið, þjálfarann og félagið. Ég er glöð að hafa hjálpað liðinu í dag,“ sagði hin bandaríska Melissa Garcia í samtali við mbl.is eftir að hún skoraði sigurmark Þróttar í sigrinum á FH, 2:1, í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag.

Hún er nýkomin í Þrótt en hefur einnig leikið með Haukum og Tindastóli. „Þetta hefur verið gott. Æfingarnar eru erfiðar en við erum öll að róa í sömu átt og vinnum vel saman.“

Hún er nú að spila með sínu þriðja liði á Íslandi. Hvers vegna kemur hún alltaf aftur til Íslands?

„Ég elska að vera hérna, ég elska fólkið og veðrið… stundum. Þetta er fallegur dagur í dag og ég er ánægð með að vera komin aftur,“ sagði hún.

Hún var hrifin af tíma sínum hjá Tindastóli en er á sama tíma ánægð með að vera komin í höfuðborgina. „Þetta er erfið spurning. Ég elska fólkið fyrir norðan en að vera í borginni hentar mér betur núna.“

Hún skoraði sigurmarkið með skalla af stuttu færi þegar skammt var eftir. „Sigríður kom með flotta fyrirgjöf, ég er sterk í loftinu og skallaði boltann í netið. Við lögðum mikla áherslu á að ná í sigur í dag og í næstu tveimur leikjum. Þetta var mikilvægt,“ sagði Melissa Garcia.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert