Fallslagur í Kórnum og bikarliðin á Akureyri

Ívar Örn Árnason og Nikolaj Hansen í fyrri leik Víkings …
Ívar Örn Árnason og Nikolaj Hansen í fyrri leik Víkings og KA í vor. mbl.is/Óttar Geirsson

Tveir fyrstu leikirnir í fimmtándu umferð Bestu deildar karla í fótbolta fara fram í dag og er spilað í Kópavogi og á Akureyri.

HK og Vestri, sem sitja í 10. og 12. sæti mætast í Kórnum klukkan 14 en þar eru í húfi gríðarlega dýrmæt stig í fallbaráttunni. HK hefur tapað þremur leikjum í röð og er með 13 stig en Vestri hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum og er kominn í botnsætið með 11 stig.

Liðin geta hins vegar haft sætaskipti í dag, ef Vestfirðingarnir ná að vinna eins og þeir gerðu þegar liðin mættust í heimaleik Vestra í Laugardalnum í vor. Þá skoraði Benedikt V. Warén sigurmarkið, 1:0.

KA og Víkingur, liðin sem leika til úrslita í bikarkeppninni í næsta mánuði, eigast við á Akureyri klukkan 16.15. Víkingar eru efstir með 33 stig en KA er í áttunda sæti með 15 stig.

Ef horft er á síðustu fjóra leiki liðanna í deildinni er KA hins vegar með vinninginn því Akureyrarliðið er komið á góða siglingu eftir slæma byrjun á tímabilinu og fengið 10 stig í síðustu fjórum leikjum. Víkingar hafa fengið átta stig á sama tíma.

Þetta eru því tvö lið í góðum gír en KA-menn mæta mjög laskaðir til leiks því allir þrír helstu miðjumenn þeirra eru í leikbanni í dag, þeir Daníel Hafsteinsson, Bjarni Aðalsteinsson og Rodrigo Gomes. Það munar um minna gegn toppliði deildarinnar.

Víkingur vann 4:2 þegar liðin mættust á Víkingsvellinum í lok apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert