Markvörður HK úr leik - fer Beitir í markið?

Arnar Freyr Ólafsson hefur verið í stóru hlutverki hjá HK.
Arnar Freyr Ólafsson hefur verið í stóru hlutverki hjá HK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, meiddist illa í leik liðsins gegn Vestra í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í dag og hætta er á að hann spili ekki meira á þessu tímabili.

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk eftir leikinn í Kórnum er óttast að hásin í fæti Arnars hafi slitnað og sé það rétt má hann búast við átta til níu mánaða fjarveru.

Stefán Stefánsson kom í hans stað í markið í leiknum í dag og spilaði sinn annan leik í efstu deild.

Arnar hefur verið í stóru hlutverki í liði HK og verið með bestu mönnum liðsins undanfarin ár. Hann er leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi með 97 leiki.

Beitir Ólafsson, markvörður HK og fyrirliði um árabil, hafði félagaskipti yfir í HK áður en félagaskiptaglugganum var lokað í apríl og samkvæmt heimildum mbl.is er hann til taks ef eitthvað kemur upp á í markvarðamálum félagsins. Það er því ekki ólíklegt að Beitir taki fram hanskana á ný og verji mark HK það sem eftir er tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert