Sveinn Margeir rotaði Víkingana

Hallgrímur Mar Steingrímsson, með boltann í dag. Danijel Djuric og …
Hallgrímur Mar Steingrímsson, með boltann í dag. Danijel Djuric og Karl Friðleifur Gunnarsson fyrir aftan hann.

KA og Víkngur mættust í seinni leik dagsins í Bestu-deild karla í dag.  Leikurinn var í 15. umferðinni og var spilað á KA-vellinum á Akureyri. Eftir mikla baráttu hafði KA 1:0-sigur.

KA er nú með 18 stig og komið í 7. sætið en Víkingur er áfram í toppsætinu með 33 stig og er fimm stigum á undan Val.

Fyrri hálfleikurinn var markalaus en Víkingar þjörmuðu lengstum að heimamönnum. Gott flæði var í leik þeirra og komu sóknarbylgjurnar eins og öldur inn að marki KA. Heimamenn sluppu fyrir horn, vörðust vel og svo var Steinþór Már Auðunsson mjög öruggur í marki KA. KA fékk þó líklega besta færið þegar Harley Willard skaut boltanum framhjá eftir langt innkast. Viðar Örn Kjartansson var svo dæmdur rangstæður eftir að hafa skorað fyrir KA. Stóð mjög tæpt á þeim dómi og verður málið eflaust skeggrætt af spekingum.

Seinni hálfleikurinn var í mun meira jafnvægi en hvort lið fékk sín færi

Víkingar fengu tvö góð færi um miðjan hálfleikinn en Steinþór Már varði vel í báðum tilvikum. Hinum megin komst Harley Willard í algjört dauðafæri en Pálmi Rafn Arinbjörnsson varði virkilega vel. Á lokamínútunum voru Víkingarnir öllu ákveðnari en KA varðist ötullega. Það var svo rétt undir lokin sem Sveinn Margeir Hauksson óð í gegn um þrjá Víkinga, kom sér inn í teig og hamraði boltann í netið. Reyndist þetta sigurmarkið en Víkingar reyndu hvað þeir gátu í uppbótatímanum að jafna leikinn.

KA hefur nú unnið fjóra af fimm síðustu leikjum sínum og hefur haldið hreinu tvo leiki í röð. Liðið virkaði nokkuð þétt í dag með Steinþór Má og Hans Viktor Guðmundsson sem bestu menn. KA fékk þrjú gullin marktækifæri í leiknum og dugði að skora úr einu þeirra.

Víkingar voru með boltann stóran hluta leiksins en þeir náðu sjaldnast að opna heimamenn almennilega. Var þetta fyrsti leikur liðsins í sumar þar sem þeim tekst ekki að skora.

KA 1:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Elfar Árni Aðalsteinsson (KA) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert