Þægilegt að koma sér inn í hópinn

Valskonur fyrir leik.
Valskonur fyrir leik. mbl.is/Ólafur Brink

Natasha Anasi var skælbrosandi þegar að mbl.is talaði við hana eftir sigur á Keflavík, 2:1, í 13. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu.

Þetta var fyrsti leikur Natöshu hjá Val en hún gekk til liðsins frá Brann í Noregi á dögunum.

Natasha lék með Keflavík áður og mætti því sínum gömlu félögum. Hún hefur einnig leikið með ÍBV og Breiðabliki.

„Rosa sætur sigur. Það er algjört æði að vera komin í Val. Fólkið í kringum félagið, leikmenn og þjálfarar hafa tekið vel á móti mér. Búið að vera mjög þægilegt að koma sér inn í hópinn. 

Það er líka skemmtilegt og gott að þekkja margar í liðinu fyrir fram. Þær hrósa manni og svona, sem er jákvætt,“ sagði Natasha eftir leik. 

Natasha Anasi.
Natasha Anasi. Ljósmynd/Alex Nicodim

Gaman að berjast við þær

„Markið lá í loftinu. Við vorum að banka og banka á hurðina. Það var alltaf að fara að koma mark,“ bætti Natasha við.

Valur er með jafnmörg stig og Breiðablik, 36, þegar að 13 umferðir eru búnar. Næsti leikur liðsins er gegn Tindastóli á Sauðárkróki.

Það er alltaf skemmtilegt að spila á móti Breiðabliki og vera að berjast við þær. Nú er einbeitingin bara á næsta leik og að vinna þar gegn Tindastóli á Króknum, það verður erfitt,“ sagði Natasha.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert