„Við getum alltaf sótt úrslit“

Viðar Örn Kjartansson í baráttu um boltann í kvöld. Hann …
Viðar Örn Kjartansson í baráttu um boltann í kvöld. Hann skoraði mark sem var dæmt af. mbl.is/Kristín Hallgrímsdóttir

„Það er alltaf skemmtilegast að skora í lokin og gott að enda þennan leik þannig“ sagði KA-maðurinn Sveinn Margeir Hauksson eftir 1:0 sigur KA á Íslands- og bikarmeistaraliði Víkings í Bestu deildinni í dag.

Víkingar sóttu töluvert meira í leiknum en KA fékk sín færi og nýtti eitt þeirra. Sigur KA var sá fjórði í síðustu fimm leikjum og liðið hefur bætt fyrir brösuga byrjun í deildinni. KA er nú í 7. sæti, stigi á eftir Fram, sem á leik til góða.

„Mórallinn var bara flottur og hópurinn var alltaf á þeirri línu að við myndum rétta úr kútnum. Það var kannski full lengi að gerast  en nú hljótum við að stefna á efri hlutann.“

KA þurfti að skipta út allri miðju sinni á milli leikja þar sem þeir sem þar spila oftast voru allir í leikbanni. Það virtist ekki bitna á liðinu í dag.

„Við erum alveg með breiðan hóp og marga fjölhæfa leikmenn sem geta leyst alls kyns stöður. Við misstum bara kjarnann úr liðinu með Rodri, Danna og Bjarna. Þeir eru með svaka hlaupatölur og hafa getað keyrt yfir miðjuna. Það hentaði okkur í dag að liggja aftarlega og sem betur fer fengu Víkingarnir ekki fleiri færi því þeir eru stórhættulegir. Manni leið nú ekkert vel eftir áganginn hjá þeim snemma í fyrri hálfleik. Þeir skora alltaf og vinna leiki þótt liðið spili ekki alltaf frábærlega. Þeir hafa verið að vinna okkur með marki í lokin í einhverjum leikjum en nú snérist það við. Það var geggjað að geta snúið þessu við.“

Viðar Örn skoraði mark í fyrri hálfleiknum sem var dæmt af vegna rangstöðu.

<em>Var það réttur dómur?</em>

„Ég hef ekki hugmynd um það en það hefði verið geggjað að fá hann á blað. Við eigum bara mörkin hans inni.“

<em>Nú ver þetta þinn síðasti leikur með KA í deildinni í sumar þar sem skólavist í Bandaríkjunum bíður þín. Verður liðið ekki vængbrotið án þín?</em>

„Ég hef fulla trú á að KA haldi áfram að safna stigum. Bara eins og liðið sýndi í dag. Það vantar leikmenn og við kannski ekki að spila okkar besta leik. Við getum alltaf sótt úrslit sama hvað við missum marga leikmenn úr hópnum“ sagði Sveinn Margeir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert