Fáum allt of mörg mörk á okkur

Aron Sigurðarson með boltann í kvöld. Höskuldur Gunnlaugsson verst honum.
Aron Sigurðarson með boltann í kvöld. Höskuldur Gunnlaugsson verst honum. mbl.is/Ólafur Árdal

„Þetta er svekkjandi,“ sagði KR-ingurinn Aron Sigurðarson eftir tap síns liðs gegn Breiðabliki, 4:2, í Bestu deildinni í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. 

KR-liðið er í miklu veseni með 14 stig í níunda sæti deildarinnar og aðeins tveimur stigum frá fallsæti. 

„Erfiður útileikur gegn góðu Blikaliði en mér fannst þetta bara sama sagan og í mörgum öðrum leikjum. 

Erum mjög góðir á milli teiganna en inn í báðum teigunum erum við lélegir. Við fáum á okkur allt og mörg mörk sem er dýrt gegn liði eins og Blikum,“ sagði Aron við mbl.is eftir leik. 

Á erfitt með að útskýra það

KR hefur ekki unnið leik í yfir tvo mánuði en á þeim tíma hefur liðið gert fjögur jafntefli og tapað fjórum leikjum. 

Er eitthvað hægt að útskýra slæmt gengi KR-liðsins? 

„Ég get í rauninni ekki útskýrt það. Búið að vera gegnum gangandi allt tímabilið. Við finnum fá svör við þessu. Erum að leka of mikið af mörkum.“

Hvað getið þið gert til að koma ykkur aftur upp?

„Standa saman. Gamla klisjan, bara einn leikur í einu. Nú erum við komnir í smá botnbaráttu og við þurfum að rífa okkur í gang. Megum ekki missa sjálfstraustið eða trúnna. 

Verðum að bæta liðsheildina. Þegar að við erum að verjast, ekki gefa svona auðveld mörk og nýta stöðurnar sem við fáum í sókn betur.“

Gott tækifæri fyrir þá

Fullt af ungum leikmönnum voru inn á vellinum og á bekknum hjá KR. Aron segir það jákvætt. 

„Við neyðumst til að gera fimm breytingar núna og það koma ungir strákar inn sem er gott fyrir félagið og þá. Þeir fá reynslu af því.“

KA á heimavelli er næsti leikur KR-inga. 

„Fyrsti sigurinn á heimavelli á tímabilinu kemur þar,“ bætti kokhraustur Aron við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert