Tindastóll og Fylkir mættust í hörku leik í Árbænum í fallbaráttunni í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Fylkir hafði betur og vann sannfærandi 4:1 sigur.
Fylkir er í níunda sæti með níu stig og Tindastóll með 11 í áttunda sæti.
Leikurinn var kaflaskiptur í fyrri hálfleik og bæði lið fengu hörku færi. Jordyn Rhodes minnti strax á sig á fyrstu mínútu þegar hún tók flottan snúning inni í teig en skaut framhjá.
Jordyn skoraði svo fyrsta mark leiksins á 11. mínútu eftir flotta sendingu frá Elísu Björk Hjaltadóttir, Jordyn tók boltann á kassann og setti boltann í markið, 1:0 fyrir gestunum.
Fylkir jafnaði á 38. mínútu þegar Abigail Boyan tók sprett upp völlinn og negldi boltanum í netið og staðan var 1:1 í hálfleik.
Fylkir kom af krafti inn í seinni hálfleik og skoraði mark eftir aðeins fimm mínútur en það skoraði Helga Guðrún Kristinsdóttir eftir hornspyrnu , fastur skalli yfir Mariu og staðan 2:1.
Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði svo þriðja mark Fylkis á 70. mínútu eftir krafs í teignum. Helga sendi boltann fyrir og Guðrún vann baráttuna við tvo varnarmenn og Mariu.
Kolfinna Baldursdóttir gerði svo alveg út um leikinn á 88. Mínútu þegar hún skoraði fjórða mark Fylkis eftir glæsilegan undirbúning hjá Mariju Radojicic. Hún var með varnarmann hangandi á sér en hristi hann af sér og sendi boltann á Kolfinnu Baldursdóttir sem skoraði af miklu öryggi.