Gríðarlega mikilvægur sigur

Byrjunarlið Fylkis í kvöld.
Byrjunarlið Fylkis í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Við lögðum þennan leik upp sem úrslitaleik ef við ætlum að vera með í baráttunni um að halda sæt okkar í deildinni,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis í Bestu deild kvenna eftir 4:1, sigur á Tindastól í dag.

„Gríðarlega mikilvægur sigur, skipti öllu. Stelpurnar sýndu gríðarlega vinnusemi, karakter og vilja og við lögðum bara upp þau grunngildi að leggja sig fram og fá alvöru vinnuframlag sem þær gerðu frábærlega.

Þetta var spurning um það að fara út á völl og selja sig dýrt. Á móti liði eins og Tindastól sem er líkamlega sterkt þá verðum við að mæta því, við gerðum það til dæmis ekki fyrir norðan, þá vorum við undir í öllum návígjum en við náðum þeim í dag og vorum jafnvel yfir. Þegar lið eru í stöðum eins og við erum í dag þá verður þetta að vera til staðar, ef það er til staðar þá verður annað mun auðveldara,“ sagði Gunnar en Fylkir tapaði fyrri leik liðana, 3:0, í maí.

Fylkir hefur skorað 14 mörk í 13 leikjum og fjögur þeirra komu í dag en fyrir það fór liðið þrjá leiki í röð án þess að skora mark.

„Við erum með mikið af markaskorurum í liðinu okkar, skoruðum mikið í fyrra og á undirbúningstímabilinu og fram að móti en síðan hefur bara eitthvað skellst í lás.

Við gerðum áherslubreytingar í leikstöðum í dag en fyrst og fremst var vilji og dugnaður. Það var líka meiri hreyfanleiki sóknarlega sem við vorum að skerpa á eins og markið hjá Abigail (Boyan), mjög gott hlaup frá Guðrúnu (Karítas Sigurðardóttur) sem gal opnar fyrir Abigail í skotið. Við fengum það í gegn sem við höfum verið að vinna í en kannski ekki náð að skapa inni á vellinum en gerðum það í dag.“

Fylkir er nú í níunda sæti með níu stig, jafn mörg og Keflavík í tíunda og tveimur stigum frá Tindastól sem er í öruggu sæti.

„Eftir svona sigur getur maður ekki annað en verið bjartsýnn og auðvitað verðum við að fylgja þessu eftir. Þessi leikur í dag getur gefið okkur sjálfstraust inn í framhaldið.

Ef við fáum svona vinnuframlag og dugnað þá eru okkur allir vegir færir og við erum spennt fyrir komandi leikjum. 

Við erum komin í pakkann, það hefði verið hund leiðinlegt í dag að tapa leiknum þá hefði þetta verið ofboðslega erfitt. Þetta verður erfitt áfram en þetta hefði verið hálf vonlaust ef við hefðum tapað í dag svo nú höldum við ótrauð áfram og vonandi náum við að safna fleiri stigum í sarpinn og það líði ekki jafn langt á milli sigurleikja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert