Öll lið vildu vera í okkar sporum

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Það er nóg um að vera hjá Íslandsmeistaraliði Víkinga í karlafótboltanum. Liðið datt út úr Meistaradeildinni á þriðjudag eftir tap gegn Shamrock Rovers í Dublin og fór svo til Akureyrar í dag til að spila gegn KA í Bestu-deildinni.

Framundan eru svo leikir í Sambandsdeildinni þar sem Víkingur mun spila í Albaníu. Áður en liðið heldur þangað spilar það heimaleikinn en á milli Evrópuleikjanna er deildarleikur gegn HK.

Víkingur tapaði 1:0 gegn KA og þrátt fyrir súr töp í tveimur leikjum á fimm dögum er þjálfarinn Arnar Gunnlaugsson ekkert að fara af límingunum. Hann kom í spjall eftir tapið gegn KA.

„Mér fannst ótrúlegt að við höfum ekki skorað í fyrri hálfleik í dag. En hættan er alltaf sú að þegar þú gerir ekki mark, þá gæti það bitið þig í rassgatið þegar líður á leikinn. Við erum bara í smá lægð þessa dagana. Það er ákveðin áskorun að vera á öllum þremur vígstöðvum og ég tala nú ekki um þegar þú ert farinn að vorkenna sjálfum þér svolítið mikið ef að þú nýtir færin illa.

Ég skynjaði líka smá örvæntingu í líkamstjáningu okkar manna þegar að færin fóru forgörðum, þá fóru menn að vorkenna sjálfum sér of mikið. Og gleymdu líka að verjast, af því að það er það sem þarf að gera til að vinna þessa blessuðu titla. Það sem varð okkur að falli var einfaldlega, ólíkt okkur, bara mjög slakur varnarleikur.

Ég held að þegar KA skoraði þá unnu þeir boltann við þeirra vítateig og ég held ég hafi talið fimm sekúndur og þá lá boltinn í netinu okkar. Það var eiginlega of slappt af okkar hálfu.“

Eftir Evrópuvonbrigðin úti í Dublin getur verið vandasamt að undirbúa lið svona skömmu eftir skell. Hvernig fannst Arnari sínir menn virka í aðdraganda leiks?

„Já, góð spurning. Mér fannst fyrri hálfleikurinn gefa góð svör frá okkar mönnum. Það var gott flæði og mér fannst eins og við gætum opnað þá að vild. En akkúrat á þeim punkti þá ertu kannski líka viðkvæmur eftir tapleikinn og hvernig hann tapaðist úti í Írlandi, þá viltu fá markið til að fá létti í kroppinn á þér til að geta haldið áfram og þegar markið kemur ekki að þá kannski kemur smá örvænting í leik okkar."

Nú er verkefni Arnars að rífa menn upp eftir vonbrigði síðustu tveggja leikja. Þeir sitja enn á toppi deildarinnar, í bikarúrslitum og í Sambandsdeild Evrópu. Ekki afleit staða.

„Já, þetta er margbreytilegt starf og ég hef reynt að hamra það inn síðustu 3-4 ár að veldi geta dottið niður einn, tveir og sex, ef menn sofna á verðinum. Það getur allt farið í 2-3 leikjum. Þú getur verið úr leik í bikar, úr í Evrópu og búinn að missa toppsætið í deildinni.

Það er það sem gerir íþróttina okkar svo skemmtilega að þú þarft alltaf að vera á tánum og þegar þú ferð í gegnum svona öldudal er trikkið að reyna að tapa sem fæstum leikjum og vinna þig aftur inn í mótið með karakter og dugnaði. Það er bara verkefnið sem við þurfum að takast á við í dag."

Arnar var að lokum spurður um fyrirhugaða ferð til Albaníu. Valsmenn eru nýbúnir að vera þar og þurftu að glíma við allskyns ófögnuð að hálfu albanskra stuðningsmanna og stjórnarmanns úr röðum andstæðinganna.

„Ég held að öll liðin í landinu myndu vilja vera í okkar sporum. Það er svo margt að gerast hjá okkur en við erum líka á toppnum í deildinni, sama hvernig fer hjá Val og Breiðabliki um helgina. Við erum svo komnir í bikarúrslit líka. Nú er bara að gíra sig upp í komandi verkefni. Við höfum gegnið saman í gegn um margt á síðustu árum og hef enga trú á öðru en við sýnum hvers við erum megnugir“ sagði Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert