Þolinmæði og aftur þolinmæði

Jökull I. Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar.
Jökull I. Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ræddum fyrir leikinn og í hálfleik að við þyrftum að vera þolinmóðir,“ sagði Jökull I. Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar eftir 2:0 sigur á Fylki þegar liðin mættust í 15. umferð efstu deildar karla í fótbolta í Garðabænum í kvöld og skilaði Garðbæingum upp um eitt sæti í deildinni, í það sjöunda.

Óhætt er taka undir þetta með þolinmæði því Stjörnumenn héldu stöðugri pressu og uppskáru ríkulega í lokin með tveimur mörkum. „Vissum að Fylkir myndi vera þéttir og ekki pressa á okkur með gott vel skipulagt lið með góða leikmenn og góðan þjálfara.  Við vissum því að þetta yrði erfitt og gæti tekið langan tíma að brjóta þá en mér fannst mitt lið frábært í dag, bæði í sókn og vörn.  Jafnvægið var gott hjá okkur og einbeitingin góð.  Auðvitað spiluðum við einhverjum boltum upp í hendurnar á þeim, sem var ekki klókt hjá okkur á einhverjum augnablikum en heilt yfir var þetta virkilega góður leikur. Mér finnst einbeitingin svo góð hjá okkur, hugarfarið svo öflugt núna og við á góðum stað að svo ég hafði engar áhyggjur af því að Fylkir myndi sækja of mikið á okkur,“ sagði Jökull.

Þurfum að auka hraðann fyrir fimmtudaginn

Stjarnan er með í Sambandsdeild UEFA eftir sigur á Norður-Írska liðinu Linfield og og mætir á fimmtudaginn í Garðabænum Paide frá Eistlandi í 2. umferð. Fyrir vikið mátti búast við reynt yrði að hvíla eitthvað lykilmenn eins og Emil Atlason, sem var gert en þá komu aðrir ferskir fætur og skiluðu sínu. „Okkur finnst þessi leikur bara skipta máli.  Emil hefur spilað mjög margar mínútur og fengið litla hvíld svo hann byrjaði ekki inná auk þess að fleiri eru tæpir og þreyttir en við stilltum upp í dag að einhverju leiti okkar sterkasta liði og allir sem komu inn voru frábærir, komu virkilega vel inn.  Við getum ekki bara verið að hugsa um Evrópuleik, við þurfum líka að hafa einbeitingu á deildinni og megum ekki tapa henni.“

Oft er gott að sigra leik áður en spilað er við útlend lið.  „Ég held að við tökum úr þessum leik hvað við vorum í góðu jafnvægi og skipulagið gott ásamt  þolinmæði en við þurfum aðeins að auka hraðann fyrir fimmtudaginn.  Hefðum getað gert það í dag því leikurinn á fimmtudaginn verður allt öðruvísi, þá mætum við liði sem spilar allt öðruvísi en Fylkir.  Það er ekki hægt að bera það saman,“ bætti þjálfarinn við. 

Finn alveg fyrir þreytu

Markahæsti leikmaður Stjörnunnar, Emil Atlason, byrjaði á varamannabekknum en kom svo inná á 67. mínútu, fékk strax færi sem hann klúðraði en hætti ekki og braut svo ísinn með fyrra marki Stjörnunnar á 80. mínútu.  Innákoma hans hleypti líka rækilega lífi í bitið í sóknarleiknum. „Ég finn alveg fyrir þreytu því ferðalagið heim frá Evrópuleiknum var þungt en finnst fyrst og fremst finnst mér fínt að vinna leikinn.  Auðvitað er gott að vinna og fá sigur inn í Evrópuleikinn og gefur okkur aukakraft inn í Evrópuleikinn,“ sagði Emil eftir leikinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert